Óráðlegt að ganga niður að Öskju

Öskjuvatn - Eina mínútu tekur flóðbylgju að komast að vatninu …
Öskjuvatn - Eina mínútu tekur flóðbylgju að komast að vatninu og menn ættu ekki að fara að bökkum þess, að sögn sérfræðings. mbl.is/Sigurður Bogi

Línur voru lagðar að áframhaldandi rannsóknum á Öskjusvæðinu á sérstökum fundi í morgun eftir að stór skriða féll þar í síðustu viku. Ekki er ráðlegt að fara niður að vatninu að sögn Ármanns Höskuldssonar jarðskjálftafræðings. 

Ákvörðun verður tekin í lok þessarar viku um hvort opna eigi fyrir afgirt vásvæði, en til að taka þá ákvörðun segir Ármann að sem mestar upplýsingar verði að liggja fyrir. „Það fer eftir niðurstöðum. Menn eru að reyna að vinna eins hratt og mögulegt er,“ segir hann við mbl.is.

Aðilar frá Veðurstofu, Jarðvísindastofnun, Almannavörnum og þjóðgarðinum funduðu um Öskjusvæðið í morgun.

„Eins og málið er núna er ekki hægt að taka sénsinn á því að þetta gerist aftur. Líkindareikningar sýna að flóðbylgju tekur eina mínútu að fara frá Víti að vatninu. Ef þú treystir þér ekki til að hlaupa frá vatninu upp á topp áttu ekki að fara þangað niður.“

Rætt var við Kristínu Vogfjörð, rannsóknarstjóra Veðurstofu Íslands, í Morgunblaðinu í dag. Hún tekur í sama streng og segir að miðað við dýpt vatnsins hafi flóðbylgjan verið um 60 sekúndur að berast yfir vatnið. Hún segir hægt að vara fólk við því, til dæmis með skiltum við Öskjuvatn, að sjái það mikið hrun í vatnið hafi það um eina mínútu til að forða sér frá vatnsborðinu áður en flóðalda kemur. Aldan fór hundruð metra inn eftir landinu þar sem grynningar eru mestar. Skriðusérfræðingar telja þó mjög ólíklegt að viðlíka atburður verði aftur við Öskjuvatn í bráð.

Hvítvoðungur á jarðfræðilegum skala

Ýmiskonar rannsóknir þurfi að eiga sér stað til að upplýst ákvörðun geti verið tekin, segir Ármann.

„Það þarf að hitamæla, kortleggja botninn, skoða allar sprungur, mæla betur allar útlínur flóðsins, fá betra kort af skriðunni og fleira. Þar sem þetta er fjölmennur ferðamannastaður þurfa menn að afla eins mikilla upplýsinga og hægt er.“

Rannsóknir felist m.a. í að gera grein fyrir því hversu stór skriðan er. „Við erum hugmyndir um að hann 0,1 kúbikkílómeter. Þetta er stærsta skriðan sem hefur fallið á Íslandi síðan síðustu skriður í Öskjuvatni féllu.

Það má ekki gleyma því að þessi hola er innan við tvö hundruð ára gömul. Hún er hvítvoðungur á jarðfræðilegum tímaskala og ekki búin að jafna sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka