Stefán Eiríksson, fráfarandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, þvertekur fyrir að hann hafi hætt störfum og sótt um stöðu sviðsstjóra velferðarsviðst Reykjavíkurborgar vegna þrýstings frá innanríkisráðherra.
„Ég hætti ekki nema út af því að ég hafði áhuga á að skipta um starf og fara að gera eitthvað annað og taldi það tímabært,“ segir Stefán Eiríksson.
„Ég er ekki að hætta út af þrýstingi frá ráðherra. Ástæðan fyrir því að ég ákvað að sækja um nýtt starf var að mér fannst það áhugavert og að það væri tímabært að breyta til eftir átta ár hjá lögreglunni. Það er það sem réði minni ákvörðun, annað ekki,“ segir Stefán.
Stefán vildi hins vegar ekki tjá sig um samskipti sín og ráðherra í tengslum við rannsókn lögreglu á lekamálinu svokallaða.