Lyfið Atacor, í 40 mg styrkleika, sem er blóðfitulækkandi lyf og framleitt af Actavis, hefur ekki verið fáanlegt að undanförnu.
Lyfið, sem er mjög vinsælt, er notað sem viðbót við mataræðisbreytingu til að lækka blóðfitu eins og kólesteról og þríglýseríð, þegar fituskert mataræði og önnur meðferð eins og líkamsrækt og breyttir lifnaðarhættir hafa ekki nægt til árangurs.
Þeir lyfsalar sem Morgunblaðið ræddi við staðfestu þetta og sögðu skortinn afar bagalegan. Lyfið hefur verið á biðlista hjá lyfjadreifingarfyrirtækinu Distica síðan 28. júní og hefur því ekki verið fáanlegt í rúman mánuð. Óstaðfest er hvenær lyfið er væntanlegt aftur og engin ástæða er gefin upp frá framleiðandanum fyrir því að lyfið fáist ekki. Ekki náðist í Actavis við vinnslu fréttarinnar.