„Stöðvið blóðbaðið strax, Umsátrinu verði aflétt tafarlaust, Alþjóðlega vernd fyrir Palestínumenn!“ Þetta er meðal þess sem fundargestir Félagsins Íslands-Palestínu hrópuðu fyrir utan dyr bandaríska sendiráðsins við Laufásveg í dag, en á fundinum var stuðningi Bandaríkjastjórnar við Ísraelsher mótmælt og bréfi með ályktun félagsins skilað til sendiráðsins.
Samkvæmt lögreglu voru um tvö þúsund manns á svæðinu.
Þá stóð félagið fyrir neyðarsöfnun fyrir íbúa Gaza og gengu félagsmenn manna á milli með styrktarbauk. Ágóði söfnunarinnar rennur til ALPC, gervilimamiðstöðvarinnar á Gaza, og kvennahússins AISHA.
„Þetta er ekki stríð gegn Hamas, þetta er stríð gegn palestínsku þjóðinni, og þetta er sér í lagi stríð gegn börnum. Börnunum sem eru meirihluti íbúa á Gazasvæðinu,“ er meðal þess sem Sveinn Rúnar Hauksson, formaður félagsins, sagði í ávarpi til fundargesta. „Fundurinn skorar á Barack Obama Bandaríkjaforseta að stöðva blóðbaðið á Gaza tafarlaust.“
Listamennirnir Megas, Magga Stína og Kristinn Þór Árnason, gítarleikari, tóku lagið milli ávarpa en auk Sveins var Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Attack samtakanna, með ræðu til fundargesta.
Meðal þess sem kom fram í ræðu Sólveigar var að ekki væri hægt að tala um átök á Gasa, því mikill munur væri á hernaðarstyrk stríðandi aðila. „Þegar við, manneskjur, segjum að einhverjir tókust á sjáum við fyrir okkur agnarögn af jafnri stöðu. Á Gaza eru ekki átök, heldur kólóníseríng, rasismi og aðskilnaðarstefna.“
Þá voru meðlimir Amnesty International samtakanna meðal fundargesta. „Við erum að hvetja Bandaríkin til að hætta að selja og gefa Ísrael vopn,“ sagði Sif Svavarsdóttir, sem var einn hinna gulkæddu, skiltaberandi meðlima samtakanna sem sátu fundinn. „Við tökum enga afstöðu í þessum átökum en gerum þá kröfu að vopnasölubann verði lagt á alla aðila,“ sagði Bryndís Bjarnadóttir, herferða- og aðgerastjóri Amnesty á Íslandi.
Þeim sem vilja styrkja söfnun Félagsins Íslands-Palestínu er bent á eftirfarandi bankareikning þess. Hver króna sem safnast rennur óskipt í neyðarhjálp, samkvæmt samtökunum.
Bankareikningur: 542-26-6990, Kennitala: 520188-1349