,,Æfingarnar hefjast af fullum krafti á morgun og þá fer ég út á mongólsku sléttuna. Ég er orðin mjög spennt enda styttist verulega í keppnina. Ég geri mér grein fyrir að þetta verður mjög erfitt og krefjandi en ég er samt full tilhlökkunar. Þetta verður spennandi ævintýri,“ segir Aníta Margrét Aradóttir sem mun taka þátt í lengstu og erfiðustu kappreið í heimi í Mongolíu sem hefst 6. ágúst.
45 reiðmenn alls staðar að úr heiminum taka þátt í Mongol Derby kappreiðinni sem er 1.000 km löng og jafnframt talin sú hættulegasta sem til er. Keppendur ríða mongólskum villihestum sem eru lítið sem ekkert tamdir en skipt verður um hest á 40 km fresti svo að hestarnir þreytist ekki. Aníta er fyrsti Íslendingurinn sem tekur þátt í Mongol Derby reiðinni en hún mun styrkja barnaspítalasjóð Hringsins í reiðinni í Mongólíu.
Segja má að fjölbreytni einkenni þátttakendur kappreiðarinnar sem eru allt frá því að vera atvinnuhestamenn til tískubloggara og geimverkfræðinga. Þá sendir breski herinn fimm lífverði Englandsdrottningar til að keppa í ár.
Ferðalag Anítu til Mongólíu tók rúman sólarhring og segist hún á Facebook síðu sinni vera búin að skoða sig um í Ulan Batar, höfuðborg Mongólíu, ásamt öðrum keppendum Mongol Derby og slappa aðeins af áður en keppnin hefst. Í dag var Aníta á fundi í Ulan Batar ásamt öðrum keppendum þar sem skipuleggjendur keppninnar fór vel yfir allar reglur, refsistig og hvernig á að umgangast mongólsku villihestana. Mongol Derby reiðin hefur verið haldin undanfarin sex ár og hefur reynst mörgum knöpum ofviða vegna hinnar erfiðu og löngu reiðar.
Keppendum í Mongol Derby ber skylda til að safna hvatningarstyrkum og mun Aníta safna fyrir fyrir barnaspítalasjóð Hringsins. Einnig mun hún safna pening til styrktar góðgerðarfélagsins Cool Earth sem vinnur að verndun regnskóga Amazon.
Hægt er að heita á Anítu með fjárframlögum með því að leggja inn á reikning 515- 04 - 253774 til að styrkja Barnaspítalasjóð Hringsins og 515- 04 - 253778 til að styrkja Cool Earth. Sama kennitala er á báðum reikningunum en hún er : 200282-3619