Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við mbl að allir ráðherrar í ríkisstjórn njóti trausts á meðan þeir sitja. „Það liggur í hlutarins eðli,“ segir hann. Annað álitamál sé hins vegar hvort ráðherra beri að víkja undir rannsókn máls.
Hann segir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra sitja með fullum stuðningi í ríkisstjórn líkt og aðrir ráðherrar og telur það fráleitt að þurfa að gefa út traustsyfirlýsingar í hverju skrefi málsins.
Hann segist ekki ætla ekki að láta draga sig inn í eitthvert ferli þar sem í hvert sinn sem einhverjar upplýsingar séu gefnar eða einhver tjái sig, verði hringt í hann og spurt hvernig staðan sé á þeim degi. „Ráðherra sem situr er með fullt traust til þess að gegna sínu starfi. Ráðherra sem hefur glatað trausti tekur pokann sinn. Ég á mjög erfitt með að skilja kröfu um að reglulega sé verið að biðja mig um gefa út einhverjar traustsyfirlýsingar,“ segir hann.
„Það er allt annað álitamál hvort ráðherra eigi að sitja í ráðherrastól á meðan rannsókn fer fram og það er ekki spurning um traust, heldur spurning um það hvernig best sé tryggt að rannsókn málsins sé hafin yfir allan vafa og gangi eðlilega fram.“
Bjarni segist hafa staðið með Hönnu Birnu í upphafi vegna þess að það væri einkennileg staða ef innanríkisráðherra þyrfti að víkja í hvert skipti sem kæra bærist. „Ég stóð með henni í því í upphafi en síðan hefur þetta mál gengið fram og það má vel vera að menn hafi misjafnar skoðanir á því hvernig dómsmálaráðherra bregðist best við í þessum aðstæðum en það hefur ekkert með traust að gera.“
Aðspurður hvernig málið horfi við í dag segir hann umræðuna vera áhyggjuefni. „Ég hef ekki enn séð ástæðu fyrir ráðherra til þess að stíga til hliðar. En mér er umhugað um að málið gangi þannig fram að engri rýrð verði varpað á rannsóknina sjálfa og þá niðurstöðu sem fæst. Í þessu tilliti er umræðan ein og sér alltaf ákveðið áhyggjuefni. Þetta er nokkuð sem ráðherra hefur þurft að meta sjálfur og ég ætla ekki að blanda mér í það mat.“
Hanna Birna sagði í bréfi sínu til umboðsmanns að hún hefði rætt rannsóknina við Stefán Eiríksson, fráfarandi lögreglustjóra, þótt hún tæki fyrir bein afskipti. Þar sagðist hún meðal annars hafa spurt hversu langan tíma rannsóknin myndi taka. Aðspurður hvort þetta væri eðlilegt segir Bjarni það vera fyrir öllu að ráðherrann greiði fyrir rannsókn málsins.
„Það er í sjálfu sér enginn annar mælikvarði til á samskipti undir rannsókn máls heldur en sá hvort þeir sem bera ábyrgð á rannsókninni hafi ekki frjálsar hendur og greiðan aðgang að öllum upplýsingum og gögnum sem máli skipta. Það er enginn annar mælikvarði til og miðað við það sem fram er komið tel ég ekki að ráðherrann hafi blandað sér í það mál.“
Spurður hvort hann sé sammála ummælum Hönnu Birnu um að málið sé „ljótur pólitískur leikur“ segir hann engum dyljast að mjög hafi verið sótt að ráðherranum en frekar vildi hann ekki tjá sig um það.