Björgunarsveitin Kyndill á Kirkjubæjarklaustri var kölluð út fyrr í dag þegar tilkynning barst um slasaða konu við Stjórnarfoss. Konan var í klifri þegar hún féll og meiddist. Sjúkrabíll var einnig sendur á staðinn og þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út.
Búið var um konuna og henni komið í sjúkrabíl á meðan beðið var eftir þyrlunni sem kom á slysstaðinn um klukkan 15. Þyrlan lenti við mjög erfiðar aðstæður í þröngu gilinu og flaug svo innar í það til að ekki þyrfti að aka með konuna, sem talin er alvarlega slösuð, í sjúkrabílnum eftir ósléttu gilinu að þyrlunni. Hún flytur nú konuna á sjúkrahús í Reykjavík, samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu.