Vindpoki í regnbogalitum á Hinsegin dögum

Hörður Harðar­son, Stefán Gunn­ars­son og Aðal­heiður Snæ­bjarn­ar­dótt­ir frá Vert með …
Hörður Harðar­son, Stefán Gunn­ars­son og Aðal­heiður Snæ­bjarn­ar­dótt­ir frá Vert með vind­pok­ann flökt­andi í bak­grunni.

Hinsegin dagar hófust í dag og haldið  er upp á hátíðina víðs vegar um land með ýmiss konar hætti. Hátíðin nær hápunkti sínum með gleðigöngunni á laugardag.

Á þaki burstabæjarins Þóroddsstaða, einu elsta húsi Hlíðahverfisins í Reykjavík, var í dag flaggað nokkuð óvenjulegum vindpoka í tilefni dagsins, en slíkir pokar eru yfirleitt notaðir á flugvöllum til að gefa flugmönnum vísbendingar um stefnu og styrk vinds. Pokinn er í regnbogalitum og blasir við ökumönnum sem fara um Lönguhlíð eða fjölfarinn hluta Bústaðavegar niður með Öskjuhlíð.

Um er að ræða höfuðstöðvar auglýsingastofunnar Vert, en alla jafna blaktir hefðbundinn hvítur vindpoki með rauðum röndum á þaki hússins vegna þess að pokinn er vörumerki fyrirtækisins.

Í ár vildi fyrirtækið bregða út af laginu og flagga vindpoka í regnbogalitunum í tengslum við Hinsegin daga til stuðnings við réttindabaráttu samkynhneigðra. Í kjölfarið var haft samband við Ólaf Valgeirsson hjá Jónsveri, sem er eini framleiðandi vindpoka á Íslandi. Ólafur var svo hrifinn af hugmyndinni að hann ákvað að Jónsver myndi sauma pokann endurgjaldslaust.

„Við erum opin fyrir öllu og segjum aldrei nei“

„Ég hafði gaman af því að prófa eitthvað nýtt en við höfum bara verið með rauðan og hvítan lit hingað til, og eitthvað smá annað aukalega. Mér finnst þessi poki líta mjög vel út,“ segir Ólafur Valgeirsson hjá Jónsveri, en fyrirtækið saumar alla vindpoka fyrir Isavia. 

„Þeir segja að pokarnir hjá okkur séu sterkustu vindpokar sem framleiddir eru í heiminum í dag. Þeir hafa eitthvað verið að prófa framleiðslu annars staðar frá og segja að hún standist ekki samanburðinn,“ bætir Ólafur við.

Hann segir að gaman sé að leggja svo góðu málefni lið. „Þetta virkar á báða bóga og það er gaman að taka þátt í þessu. Þetta er ekkert nema skemmtilegt og við tökum að okkur að sauma margar útgáfur af svona vindpokum,“ en Ólafur hefur aldrei saumað poka í líkingu við þennan.

Ólafur vonast til þess að fá fleiri beiðnir um regnbogapoka þegar haldið verður upp á Hinsegin daga á næsta ári. „Vonandi hringja fleiri, það væri gaman. Við erum opin fyrir öllu og segjum aldrei nei.“

Vindpokinn var sérsaumaður fyrir Þóroddsstaði.
Vindpokinn var sérsaumaður fyrir Þóroddsstaði.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert