„Ég er ánægð með að umboðsmaður sé að vinna málið svona hratt og óski svo fljótt eftir ítarlegri upplýsingum. Ráðuneytið mun hér eftir sem hingað til veita allar þær upplýsingar sem í okkar valdi stendur til þess að hraða úrvinnslu málsins,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra og bætir við að ráðuneytið muni svara bréfi umboðsmanns innan tilsetts tíma.
Umboðsmaður Alþingis sendi í dag bréf til bæði Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í tengslum við lekamálið svokallaða og samskipti Hönnu Birnu við Stefán Eiríksson lögreglustjóra. Bréfið til Hönnu Birnu Kristjánsdóttur kemur í framhaldi af svari hennar við fyrra bréfi umboðsmanns, þar sem óskað var upplýsinga um samskipti hennar við Stefán Eiríksson.
Tryggvi ítrekar nú ósk um upplýsingar og gögn um fundi hennar með Stefáni Eiríkssonar og vísar hann m.a. í reglur um skráningu formlegra samskipta í Stjórnarráði Íslands, sem settar voru í desember 2013.
Hanna Birna segir eðlilegt að umboðsmaður skoði málið betur. „Það er ósköp eðlilegt að hann óski eftir frekari gögnum og það er mat ráðuneytisins að því skýrar sem þessi mál koma í ljós því farsælla sé það.“
Aðspurð hvort umbeðin gögn séu til í ráðuneytinu segir hún að það eigi eftir að fara nákvæmlega yfir hverju verði hægt að mæta og hvernig því verði svarað. „Nú er hann að biðja um ítarlegri upplýsingar á grundvelli þeirra svara og við gerum engar athugasemdir við það.“