Á myndskeiði sem deilt hefur verið á YouTube má sjá lögreglubifreiðar veita sendibifreið, sem ekið var mjög nærri fólki á golfvelli á Seltjarnarnesi í gærkvöldi, eftirför. Bílnum er ekið yfir á rangan vegarhelming og því næst inn á vinnusvæði við JL-húsið. Þar festi ökumaðurinn bifreiðina á jarðvegsbrún byggingargrunns og vó þar salt.
Að minnsta kosti einn lögreglubílanna ók utan í sendibifreiðina, eins og sjá má á myndskeiðinu.
Í tilkynningu sem barst frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í morgun kemur fram að tilkynnt hafi verið um akstur sendibifreiðar á golfvelli á Seltjarnarnesi klukkan ellefu í gærkvöldi og hafi ökumaðurinn ekið mjög nærri fólki sem var þar við golfiðkun. Þegar lögreglumenn gáfu ökumanni sendibifreiðarinnar merki um að stöðva sinnti hann því ekki. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.
Er manninum var veitt eftirför ók hann á tvær lögreglubifreiðar og endaði hann á því að aka inn á byggingarsvæði þar sem bifreiðin sat föst á jarðvegsbrún byggingargrunns og vóg þar salt. Dráttarbifreið var fengin til að draga bifreiðina til baka svo hægt væri að nálgast ökumanninn.
Ökumaðurinn, sem var í mjög annarlegu ástandi, var handtekinn og vistaður í fangageymslu þar til hægt yrði að ræða við hann. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis/fíkniefna, nytjastuld bifreiðar, að fara ekki að fyrirmælum lögreglu, umferðaróhapp, eignaspjöll o.fl.
Hér má sjá myndskeiðið:
Frétt mbl.is: Í annarlegu ástandi á golfvelli.