Þrátt fyrir að sendibifreið hafi ekið inn á golfvöllinn á Seltjarnarnesi í gærkvöldi á hið árlega ömmumót í golfi sér stað samkvæmt áætlun í dag. Sendibifreiðin sem ók inn á golfvöll á Seltjarnarnesi og lögreglan veitti eftirför í gærkvöldi skildi ekki eftir sig verulegar skemmdir á vellinum og enginn slasaðist við golfiðkun, að sögn framkvæmdastjóra.
„Það er Guðs mildi að enginn slasaðist. Sumir þarna áttu fótum sínum fjör að launa,“segir Haukur Óskarsson, framkvæmdastjóri golfvallar Golfklúbbs Ness á Seltjarnarnesi, í samtali við mbl.is. Um tuttugu til þrjátíu manns voru á vellinum þegar ökuþórinn ók inn á hann, að sögn Hauks, og fór bíllinn mjög nærri fólki sem var við golfiðkun.
Starfsmenn skoðuðu völlinn klukkan sex í morgun til að athuga skemmdirnar og laga það sem þurfti. „Skemmdirnar eru óverulegar þótt hann hafi farið stóran hring. Það eru dekkjaför um allan völlinn,“ segir Haukur.
Þrátt fyrir atvik gærkvöldsins heldur golfvöllurinn áfram starfsemi sinni eins og til stóð. Til að mynda hófst hið árlega ömmumót klukkan níu í morgun samkvæmt áætlun. Um sextíu ömmur voru að spila golf á vellinum þegar blaðamaður mbl.is náði tali af Hauki.
„Maður vill ekki bregðast ömmunum.“
Eins og fram hefur komið var ökumaðurinn handtekinn og vistaður fangageymslu í gærkvöldi eftir að bifreiðin festist á jarðvegsbrún byggingargrunns og vó þar salt.
Sjá fyrri fréttir mbl.is:
Eftirförin í gærkvöldi: Myndskeið