Draggkóngur og draggdrottning Íslands voru krýnd í Hörpu í kvöld. Draggkóngurinn heitir „Russel Brund“ og ber svo sannarlega nafnið með reisn. Draggdrottningin var hin undurfagra „Miss Gloria Hole.“
Raunverulega nafn Russel Brund er Svanhildur Sif Halldórsdóttir og Miss Gloria Hole heitir Hjálmar Forni.
Að sögn Georgs Erlingssonar Merritt, aðstandanda keppninnar, voru atriði sigurvegaranna afar skemmtileg. Russel Brund var með sirkusatriði í anda Rolling Stones, þar sem hann lék listir sínar á sviðinu með gjallarhorn við Bítlalagið sígilda, I am a walrus.
Miss Gloria Hole söng lag eftir söngdívuna Whitney Houston. Þótti mikill þokki vera yfir atriði hennar, sem hófst á því að hún sat í bala á miðju sviðinu.