„Við erum í fullum gangi að vinna frumvarp til laga um staðgöngumæðrun. Verkáætlunin er sú að skila tilbúnu frumvarpi til ráðherra ekki seinna en í byrjun janúar,“ segir Dögg Pálsdóttir, formaður starfshóps um undirbúning frumvarps til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. „Ráðherra getur þá á vorþingi lagt fram nýtt frumvarp til laga um staðgöngumæðrun.“
Alþingi samþykkti þingsályktun um staðgöngumæðrun í janúar 2012 og var starfshópurinn skipaður um haustið. „Það er því hópsins að semja frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í samræmi við þingályktun Alþingis,“ segir Dögg.
Að sögn Daggar miðar vinnu starfshópsins vel áfram en hún leggur áherslu að hópurinn þurfi og vilji vanda vel til verka.
Staðgöngumæðrun hefur verið mikið í umræðunni undanfarna daga eftir að taílensk staðgöngumóðir ásakaði áströlsk hjón um að hafa neitað að taka við dreng sem hún ól þeim vegna þess að hann er með Downs-heilkennið. Drengurinn, sem er sjö mánaða gamall, býr nú hjá staðgöngumóðurinni í Taílandi.
„Tilvik sem þessi geta komið upp ef ekki er nægilega vel staðið að undirbúningi staðgöngumæðrunar“ segir Dögg. „Vinnuhópurinn er mjög meðvitaður um þá staðreynd og því viljum við ganga tryggilega frá því að undirbúningur staðgöngumæðrunar sé allur mjög vandaður. En vinnan við frumvarpið er í góðum farvegi og ekkert sem bendir til annars en að það standist áætlanir um að frumvarpið verði tilbúið um næstu áramót.“
„Við náttúrulega verðum að vera bjartsýn,“ segir Soffía Fransiska Rafnsdóttir Hede, talskona Staðgöngu stuðningsfélags um frumvarpið sem starfshópurinn vinnur að. „Eins og staðan er núna erum við bara að bíða eftir því að frumvarpið verði tilbúið.“
Að sögn Soffíu fylgist félagið vel með vinnu starfshópsins og verið í nánu sambandi við heilbrigðisráðuneytið. „Það er svosem ekki mikið meira sem við getum gert í augnablikinu,“ segir Soffía, en um 50 meðlimir eru í Staðgöngu.
Í dag fara flestir Íslendingar til Bandaríkjanna til þess að nálgast staðgöngumæðrun. Því fylgir þó mikill kostnaður.
„Staðgöngumæðrun í Bandaríkjunum er gífurlega dýr. Fólk fer í gegnum stofnanir sem sérhæfa sig í þessu og sjá um allt. Þær para fólk saman við staðgöngumæður, eru í viðræðum við heilbrigðisstofnanir þar, sjá um löglegu hliðina og fleira. Þetta er svona stór pakki,“ segir Soffía sem bætir við að meðalkostnaður við staðgöngumæðrun í Bandaríkjunum sé allt frá 10 til 20 milljónum.
Aðspurð segir Soffía að ferlið þurfi þó ekki endilega að vera langt. „Lengdin er bara mjög misjöfn. Það fer allt eftir því hvernig gengur að para fólk saman. Einnig er misjafnt hversu margar meðferðir fólk fer í. Hjá sumum gengur þetta í fyrsta en sumir þurfa að fara oftar.“
Að sögn Soffíu er það algengt að fjölskyldur haldi sambandi við staðgöngumóðurina eftir fæðingu barnsins. Fólkið fylgist einnig með meðgöngunni í gegnum netið og svo fylgist staðgöngumóðirin með barninu vaxa úr grasi. „Fólk myndar oft sérstakt samband við staðgöngumæður og úr verður vinátta. Þó er auðvitað draumurinn að hægt verði að gera þetta hér á landi og fólk þurfi ekki að taka eins mikla áhættu.“
Aðspurð um mál Gammy segir Soffía það vera mjög sérstakt mál en jafnframt afskaplega sorglegt. „Þetta er það sem getur gerst þegar að eftirlit og fagráðgjöf er ábótavant eins og lítur út fyrir að sé í þessu tilviki í Taílandi. Þetta ferli þarf að fara fram undir handleiðslu sérfræðinga og vera byggt á skynsamri lagasetningu um úrræðið og vonandi fáum við hana fljótlega.“