Ferðatakmörkunum um Öskju aflétt

Berghlaup varð í Öskju þann 21. júlí.
Berghlaup varð í Öskju þann 21. júlí. mbl.is/Sigurður Bogi

Almannavarnir hafa aflétt takmörkunum á ferðum ferðafólks um Öskju.

Enn er þó varað við hættu á flóðbylgjum í Öskjuvatni þar sem berghlaup niður í vatnið geta hrundið af stað og geta ógnað ferðafólki sem er nærri vatninu. Ef fólk verður vart við hrun í fjöllunum við vatnið ætti það að forða sér frá vatninu og upp í hlíðar, en flóðbylgjan er 1-2 mínútur að ferðast þvert yfir vatnið.

Ekki eru vísbendingar um vaxandi eldvirkni í Öskju í tengslum við berghlaupið og ekki er talin aukin hætta á jarðskjálftum í Öskju í kjölfar þess.

Berghlaupið sem varð í Suðurbotnum í Öskju 21.júlí hefur sýnt að ferðafólki á svæðinu kann almennt séð að vera meiri hætta búin af völdum stórra berghlaupa og flóðbylgna en menn hafa áður gert sér skýra grein fyrir. 

Með hliðsjón af rannsóknarniðurstöðum Veðurstofu og Háskóla Íslands um hrunhættu við Suðurbotna er þó ekki talið að sú hætta sé tilefni til að loka svæðinu við Víti í Öskju lengur en orðið er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka