„Með ritgerðinni vildi ég skoða hversu mikil útbreiðslan á klámi er og sjá hvort það hafi einhver skaðleg áhrif. Jafnframt skoðaði ég hvort að þörf væri á meiri kynfræðslu fyrir börn og unglinga,“ segir Ástrós Erla Benediktsdóttir um lokaritgerð sína í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Ritgerðin, sem var skrifuð í vor, ber titilinn „Útbreiðsla kláms og hugsanleg áhrif þess. Er þörf á aukinni fræðslu?“ og leiðbeinandi Ástrósar var Anni G. Haugen.
Ástrós skoðaði útbreiðslu kláms út frá alþjóðlegu sjónarhorni og notfærði sér rannsóknir hvaðan af úr heiminum en mest frá Íslandi og hinum Norðurlöndunum.
„Ég fór á fyrirlestur um klám upp í skóla og svo vorum við vinkonurnar búnar að vera að ræða um þetta,“ segir Ástrós aðspurð um ástæður þess að hún valdi sér þetta efni fyrir lokaritgerð sína. „Þær höfðu tekið áfanga um klám og áhrif þess og ég hafði heyrt mikið um þetta frá þeim. Þannig að ég ákvað að skoða þetta betur.“
Að sögn Ástrósar var markmiðið með ritgerðinni að opna augu fólks fyrir útbreiðslu kláms í heiminum og hugsanlegum áhrifum þess. Við gerð ritgerðarinnar komst Ástrós að því að útbreiðslan er gífurleg og er hægt að tengja það við aukið aðgengi að internetinu.
„Málið er að núna eru mjög ung börn komin með aðgang að bæði tölvum og símum. Ég var með heimildir upp á tíu ára gömul börn sem voru að komast mjög auðveldlega inn á klámsíður. Þar sem að internetið er aðal miðillinn þar sem hægt er að nálgast klám verður þetta mjög útbreitt með aukinni tölvu- og snjallsímavæðingu,“ segir Ástrós og bendir á að þetta hefur breyst gífurlega síðustu ár.
„Áður fyrr var þetta bara happa glappa fyrir stráka ef þeir fundu klámblöð í skúffu hjá pabba sínum eða stóra bróður. Núna er þetta allt annað.“
Aðspurð um hvað hafi komið henni mest á óvart við vinnslu ritgerðarinnar segir Ástrós það aðallega hafa verið áhrif kláms á margt í lífi fólks. „Þegar ég skoðaði allar þessar rannsóknir sá ég tengingu á milli kláms og ótrúlegustu hluta. Rosa margir töluðu til dæmis um að vera háðir klámi og þá sérstaklega karlmenn. Jafnframt kom í ljós að mikið klámáhorf getur haft slæm áhrif á sambönd og hvernig fólk tengist öðrum.“
Aðspurð um mögulegar ástæður þess að mun fleiri karlmenn horfi á klám en konur segir Ástrós að erfitt sé að benda á eitthvað eitt. „En klám er oftast framleitt fyrir karlmenn. Konan er sett í aðalhlutverk en karlmaðurinn er með yfirhöndina.“
Að mati Ástrósar er það áhyggjuefni hversu ungir drengir eru að horfa á klám. „Það sem þeir eru að sjá á netinu er auðvitað ekki raunveruleikinn og alls ekki uppbyggilegt. Samkvæmt rannsóknum fara þeir oft líka beint inn á grófustu síðurnar því þær eru aðgengilegastar,“ segir Ástrós og leggur áherslu á hversu auðvelt það er að nálgast klám í dag. „Hvaða fimm ára krakki sem er gæti opnað tölvu í dag og nálgast klám.“
Þrátt fyrir að gerð sé grein fyrir neikvæðum áhrifum kláms í ritgerðinni leggur Ástrós þó áherslu á að tilgangur ritgerðarinnar hafi ekki verið að sýna fram á að klám sé óæskilegt eða að það eigi að banna það. „Frekar á að reyna að gera grein fyrir því hverju neikvæða hlið klámheimsins getur leitt af sér, einkum með tilliti til ungmenna sem alast upp með klám,“ segir Ástrós.
Við gerð ritgerðarinnar komst Ástrós jafnframt að því að börn og unglingar þurfa betri fræðslu um klám og muninn á klámi og kynlífi. „Kynfræðsla er aðeins kennd sem aukagrein í eldri bekkjum grunn- og framhaldsskóla. Mér finnst að kynfræðsla ætti að vera kennd í yngri bekkjum og fá meira vægi þar sem einnig væri rætt um klám.“
Ástrós segir jafnframt að rannsóknir hafi sýnt að ungmenni telji klám vera fræðslu um kynlíf og er því líklegra að þau hermi eftir athöfnum sem koma fram í klámmyndum. „Klámmyndir eru flestar hverjar mjög grófar, óraunverulegar og kynlífið mjög afbrigðilegt. Jafnframt hafa rannsóknir sýnt að klám geti haft skaðleg áhrif á fólk, tilfinningar þess, sjálfsmynd, kynhegðun og viðhorf.“
Þrátt fyrir að hafa skilað ritgerðinni í vor er Ástrós ekki hætt að rannsaka klám. Aðspurð um framhaldið segist Ástrós ætla í meistaranám í félagsráðgjöf í haust þar sem hún stefnir að því að gera rannsókn um klám og áhrif þess á börn og unglinga.
Hér má nálgast ritgerð Ástrósar í heild sinni.