„Ísland er um mjög margt upplýst samfélag en þegar kemur að málefnum innflytjenda er pottur brotinn. Sumir gefa sér til dæmis að erlendar konur séu hér yfirleitt í annarlegum tilgangi. Eins og til að stunda vændi. Það er auðvitað fráleitt.“
Þetta segir Claudie Ashonie Wilson, þrítug kona sem flutti hingað frá Jamaíka fyrir þrettán árum. Sjálfri hefur henni gengið vel að laga sig að íslensku samfélagi, talar reiprennandi íslensku og lauk fyrr á þessu ári meistaraprófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík.
„Það er fólki eðlislægt að vera hrætt við breytingar og það sem það þekkir ekki,“ segir Claudie. „Þess vegna þarf að auka fræðslu um þessi mál. Þannig eyðum við fordómunum. Hafandi sagt það þá erum við á réttri leið. Það hefur orðið vitundarvakning í málefnum innflytjenda á Íslandi á allra síðustu árum og misserum – en betur má ef duga skal!“
Claudie vonar að framganga hennar verði öðrum konum af erlendum uppruna hvatning. „Ef ég get lært íslensku og menntað mig hérna hljóta aðrar konur að geta það líka. Samnemendur mínir í HR töluðu um að ég hefði verið þeim hvatning og deildarforsetinn sagði að ég ætti að vera stolt. Þetta eru hlý orð afskaplega dýrmætt veganesti út í atvinnulífið.“
Claudie sér framtíðina fyrir sér á Íslandi. Hér hefur hún menntað sig og hér hafa börnin hennar alist upp. „Auðvitað útiloka ég ekki að að snúa einhvern tíma heim til Jamaíka en ég fór þaðan átján ára og hef verið öll mín fullorðinsár á Íslandi. Auk þess á ég marga íslenska vini sem ég kalla í raun fjölskyldu mína. Þrátt fyrir það örfáa neikvæða sem ég hef lent í, er reynsla mín hér á landi almennt góð og mér líður mjög vel að vera hér. Ég hef ríka réttlætiskennd og finnst ég hafa verk að vinna á Íslandi. Ég lít bæði á mig sem Jamaíkabúa og Íslending - og er stolt af því!“