Ríkisstofnanir hafa farið um 7 milljarða fram úr áætlunum á fyrri hluta árs samkvæmt ársfjórðungsyfirliti Fjársýslu ríkisins. Framfærsla við stofnanir, fjármála-, innanríkis-, atvinnuvega- og velferðarráðuneytisins í heild hafa farið umfram heimildir. Þá hefur kostnaður við æðstu stofnanir ríkisins í heild farið yfir heimildir.
Heildarkostnaður við stofnanir forsætis- utanríkis- mennta og menningarmála- og umhverfis og auðlindaráðuneytisins hefur ekki verið umfram heimildir miðað við áætlanir í fjárlögum.
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, segir að þrátt fyrir að staðan sé góð þurfi að leita skýringa hjá þeim stofnunum sem farið hafi umtalsvert fram úr heimildum. Í vikunni verða fulltrúar þeirra ráðuneyta þar sem undirstofnanir hafa farið umtalsvert fram úr fjárlögum kallaðir fyrir fjárlaganefnd til þess að leita skýringa á umframeyðslunni.
Að sögn Vigdísar verða mennta og menningarmálaráðneytið, atvinnuvegaráðuneytið og umhverfisráðuneytið kölluð á fund nefndarinnar á morgun. Fjármálaráðuneytið mun koma til fundar á miðvikudaginn. Fundur með velferðarráðuneyti, innanríkiráðuneyti og alþingi er skipulagður í næstu viku. Fulltrúar Forsætis- og utanríkisráðuneytisins koma ekki fyrir nefndina þar sem ekki þykir þörf á að leita skýringa undirstofnana þeirra.
Eins og fram hefur komið fóru Sjúkratryggingar Íslands mest fram úr fjárheimildum eða um 1,8 milljarða umfram þær. Vegagerðin tæpum 1,7 milljörðum fram úr áætlun og Landspítalinn 600 milljónum. Veðurstofa Íslands, Sérstakur saksóknari og rannsóknarnefndir Alþingis fara allar meira en 100 milljónum fram úr áætlun.
Vigdís bendir á að hér sé um að ræða sex mánaða uppgjör og misjafnt hvar stofnanir eru staddar og hvort eftir eigi að færa einhverjar tekjur inn svo dæmi séu nefnt. „Yfir það heila er reksturinn í mjög góðu standi. Það eru örfáar undantekningar en framkvæmd fjárlaga gengur mjög vel. Þetta skýrist betur þegar ráðuneytin koma og ræða við okkur. Það er ýmislegt sem getur breyst og núna er kominn miður ágúst og þetta eru tölur frá fyrri hluta ársins. Mögulega hafa komið inn einhverjar tekjur í júlí og ágúst, “ segir Vigdís.
Stofnanir sem tilheyra æstu stjórn ríkisins hafa farið um 79 milljónum króna umfram heimildir. Þar vega þyngst rannsóknarnefndir Alþingis en þær hafa varið um 106 milljónum króna umfram heimildir. Er það sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að ekki var gert ráð fyrir því að neinu fé yrði varið til rannsóknarnefndanna í fjárlögum.
Á fyrri hluta árs skilar forsætisráðuneytið 258 milljóna króna afgangi miðað við fjárheimildir.
Á fyrri hluta ársins hafa stofnanir mennta og menningarmálaráðuneytisins ekki nýtt 1.163 milljóna króna miðað við áætlanir. Þegar búið er að taka tillit til fluttra fjárheimilda frá fyrra ári ber helst að gefa gaum að því að Landsbókarsafn Íslands hefur farið rúmar 100 milljónir króna umfram heimildir.
Utanríkisráðuneytið er rúmum 740 milljónum króna frá því að nýta áætlaðar fjárheimildir á fyrri hluta ársins.
Stofnanir atvinnuvegaráðuneytisins hafa varið rúmum 267 milljónum króna umfram heimildir. Þar af hafa hefur um 200 milljónum verið varið til matvælarannsókna umfram heimildir. Hér ber að taka fram að um 100 milljónum króna sem áætlaðar voru í málaflokkinn voru ekki nýttar á fyrra ári. Þá hefur rúmum hálfum milljarði króna umfram heimildir verið veitt til uppbyggingu ferðamannastaða.
Stofnanir ráðuneytisins hafa farið um 2,8 milljarða króna umfram heimildir. Þar af fóru héraðsdómstólar um 96 milljónum umfram heimildir. Sérstakur saksóknari fór um 162 milljónum kr. umfram og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu um 50 milljónum króna. Þá fór Vegagerðin rúmum 2 milljörðum króna umfram heimildir en átti um 352 milljónir króna frá fyrra ári. Þá hefur Þjóðskrá Íslands varið um 78 milljónum króna umfram heimildir.
Stofnanir velferðarráðuneytisins hafa varið um 634 milljónum króna umfram heimildir. Þar ber helst að nefna Sjúkratryggingar Íslands sem hafa farið um 1,8 milljörðum umfram heimildir en Landspítalinn hefur farið um 600 milljónum króna umfram. Þá hefur hjúkrunarheimilið Sóltún farið 119 milljónum króna umfram heimildir.
Stofnanir fjármálaráðuneytisins hafa farið um 4,8 milljörðum króna umfram heimildir. Langþyngst vegur greiðsla fjármagnstekjuskatts sem er rúmum 3 milljörðum meiri en gert hafði verið ráð fyrir og lífeyrisskuldbindingar sem eru rúmum 1,7 milljörðum umfram það sem átætlað var.
Ráðuneytið er rúmum 1,5 milljörðum frá því að nýta heimildir. Veðurstofa Íslands hefur farið um 146 milljónum króna umfram heimildir.