Metþátttaka í gleðigöngunni í ár

Um hundrað þúsund manns voru í miðbæ Reykjavíkur á laugardaginn til að sýna hinsegin fólki stuðning í verki og fagna fjölbreyttu Íslandi. Miðbærinn var klæddur öllum regnbogans litum og veðurblíðan lék við hátíðargesti. Sex daga dagskrá hátíðarinnar lauk formlega í gær og eru skipuleggjendur hátíðarinnar ánægðir með fjölda þátttakenda í hátíðarhöldunum.

Eva María Þórarinsdóttir Lange er formaður stjórnar Hinsegin daga og einn skipuleggjenda hátíðarinnar. Hún segist telja að met hafi verið slegið í ar. 

„Við sem höfum staðið að Hinsegin dögum síðustu 10 árin teljum að í ár hafi verið metþátttaka í gleðigöngunni. Veðurblíðan hjálpaði mjög mikið en dagurinn var mjög fallegur í alla staði. Mjög gaman var að sjá svona marga mæta og hve fjölbreytt gleðigangan var. Þá var þátttakan á viðburðum mjög góð alla vikuna, en Hinsegin dagar hófust síðastliðinn þriðjudag,“ segir Eva María.

Undirbúningur hófst í október

„Gleðigangan var góð blanda af mikilli gleði og glamúr en einnig var alvarlegur tónn. Til dæmis voru Samtökin 78 með úrklippur úr athugasemdakerfum fréttamiðla og Amnesty International var með vagn þar sem fram kom að í 78 löndum í heiminum í dag er ólöglegt að vera hinsegin. Við vorum að fagna en við gleymdum ekki boðskapnum sem liggur að baki hátíðarhöldunum,“ segir Eva María.

Undirbúningurinn fyrir gönguna hófst fyrir nærri ári. „Við byrjuðum að leggja línurnar í október. Vissir þættir breytast lítið frá ári til árs, til dæmis gangan, en það þarf að huga að óteljandi þáttum. Það er mikil vinna að skipuleggja 100 þúsund manna hátíð,“ segir Eva María.

Fullt niður fyrir horn hjá Kiki

Árni Grétar Jóhannsson, rekstrarstjóri hinsegin barsins Kiki, segir mikla aðsókn hafa verið á barinn á Hinsegin dögum. „Það var röð niður á horn Laugavegar á fimmtudags-, föstudags- og laugardagskvöld hjá okkur, en það var mikið stuð alla Hinsegin dagana. Þetta er náttúrlega besta og stærsta vika ársins hjá okkur,“ segir Árni Grétar. 

„Þetta var ein stór gleðisprengja í fimm daga. Það var æðislegt hversu fjölbreyttur hópur skemmti sér saman hjá okkur um helgina, bæði samkynhneigðir og gagnkynhneigðir. Við erum svo heppin að eiga frábæran kúnnahóp sem vill skemmta sér án allra fordóma og með mikilli gleði.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert