Árásarmaðurinn í hnífaárásinni við Frakkastíg hefur verið úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald. Maðurinn á nokkurn feril að baki hjá lögreglu að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirlögregluþjóns hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Maðurinn stakk annan fjórum sinnum í brjósthol á laugardagskvöldið og er árásin sem slík talin lífshættuleg. Fórnarlambið hefur hins vegar verið útskrifað af sjúkrahúsi, en sár hans þóttu ekki svo alvarleg að hann þyrfti að dvelja þar lengur.
Árásarmaðurinn og fórnarlambið eru báðir karlmenn á fertugsaldri, en sá síðarnefndi er af erlendu bergi brotinn og búsettur hér á landi. Ekki er talið að mennirnir þekkist.
Sjónarvottar að árásinni lýstu hegðun mannsins þannig að hann virtist hafa verið í „brjálæðiskasti“. Þannig hafi hann gengið í hringi, verið með óspektir og ógnangi tilburði við gesti á Bar 7 við Frakkastíg áður en árásin átti sér stað.
Fréttir mbl.is:
Alvarleg líkamsárás við Frakkastíg
Stunginn mörgum sinnum í brjósthol
Gekk í hringi eins og óður maður