Reiðkonan Aníta Margrét Aradóttir, sem tekur nú þátt í kappreiðinni Mongol Derby í Mongólíu, lætur engan bilbug á sér finna og var komin í búðir 18 að loknum sjötta keppnisdegi í gær. Aníta er enn í 13.-18. sæti og hefur nú lokið tveimur af þremur hlutum þessarar lengstu og erfiðustu kappreiðar í heimi.
Samkvæmt tilkynningu leiða níu keppendur kappreiðina og eru þeir komnir í búðir 22. Alls eru tuttugu keppendur fyrir aftan Anítu í kappreiðinni en tíu keppendur hafa þurft að hætta keppni vegna veikinda eða meiðsla.
Gærdagurinn mun hafa verið erfiður þar sem mongólsku hestarnir, sem keppendur riðu í gær, voru óvenju villtir og féllu alla vega fjórir knapar af baki samkvæmt upplýsingum frá aðstandendum keppninnar. Aníta virðist hafa náð að halda sér á sínum hestum en skipt er um hest á 40 km. fresti.
Nú styttist í endalok keppninnar en Aníta á tæplega 350 km eftir af reiðinni.
Hægt er að heita á Anítu með fjárframlögum með því að leggja inn á reikning 515- 04 - 253774 til að styrkja Barnaspítalasjóð Hringsins og 515- 04 - 253778 til að styrkja Cool Earth. Sama kennitala er á báðum reikningunum en hún er : 200282-3619.
Hér má fylgjast með Anítu á Facebook síðu hennar.
Sjá frétt mbl.is : Aníta í sextándu búðum