„Sjúkdómurinn fer ekki í manngreinarálit“

Robin Williams árið 2011.
Robin Williams árið 2011. AFP

„Það er þetta svarta þunglyndi, að það sé ekkert framundan. Að það sé engin von og þá ákveður fólk að svipta sig lífi. Sjúkdómurinn fer ekki í manngreinarálit en þarna er maður, vel metinn, nógir peningar og þvíumlíkt en greinilegt að hann sé það svartsýnn og þunglyndur undir þessu öllu saman að það hefur ekkert að segja,“ segir Óttar Guðmundsson geðlæknir.

Leikarinn Robin Williams framdi sjálfsvíg í gær. Williams þjáðist af geðhvarfasýki.

Hann bendir á það hversu opinskátt sé rætt um sjálfsvíg leikarans, sem sé í engu samræmi við þá miklu þöggun sem viðgengst hérlendis þegar kemur að sjálfsvígum.

„Í sjálfu sér má varla ræða um þessa hluti, um sjálfsvíg sem er mjög neikvætt að mínu mati,“ segir Óttar. Hann segir nokkra hafa vakið máls á þessu á Facebook í kjölfar sjálfsvígs stórleikarans, þar sem því er m.a. haldið fram að þetta hefði aldrei verið viðurkennt opinberlega, að maður hefði framið sjálfsvíg, hefði þetta skeð á Íslandi.

„Vestanhafs er umræðan mikið opnari um dánarorsakir og það þýðir að þá er umræðan mikið opnari um sjálfsvígið sem slíkt, aðdraganda þess, þunglyndi og annað þvíumlíkt,“ segir Óttar en telur það jákvætt hversu opinskátt þessi mál eru rædd erlendis þar sem umræðan sem fylgi í kjölfarið gangi út á það hvað sé hægt að gera til að koma í veg fyrir sjálfsvíg og hver varnaðareinkennin séu.

35-40 sjálfsvíg á ári á Íslandi

Óttar segir að á hverju ári séu það 35-40 manns sem fremja sjálfsmorð hér á Íslandi. Þar af séu fimm til sjö karlmenn á aldrinum 18-24.

„Mér finnst ekkert hægt að slá um þetta samsæri þagnarinnar og segja að það sé ekki hægt að tala um þetta því það hafi svo slæm áhrif,“ segir Óttar en hann telur að engum sé greiði gerður með því að þagga niður umræðuna um sjálfsvíg og þunglyndi, hvorki aðstandendum né þeim sem þjást af þunglyndi.

„Þær afleiðingar sem þöggunin leiðir af sér er þessi skömm og sektarkennd aðstandenda. Allir fordómarnir fara þá í gang. Þeir hugsa með sér að þetta hljóti að vera einhverjum að kenna og spyrja sig hvað gerði ég rangt,“ segir Óttar og bendir á að því meiri sem þöggunin sé, því erfiðara sé fyrir aðstandendur að takast á við þessi mál.

„Það þarf að opna umræðuna og tala um þessi mál, það er öllum fyrir bestu. Í dag eru sjálfsvíg sveipuð fordómum og bábiljum en í raun eru sjálfsvíg afleiðingar af alvarlegum geðsjúkdómi sem endar í dauða,“ segir Óttar.

Óttar Guðmundsson, geðlæknir.
Óttar Guðmundsson, geðlæknir. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert