„Þetta bar alveg svakalega brátt að. Ég fór á slysavarðsstofuna á föstudagskvöld og það var búið að skera mig upp á mánudagsmorgni. Þetta gerðist allt mjög hratt og ég hafði vart tíma til að melta þetta,“ segir Ólöf Nordal, sem greindist nýlega með illkynja æxli og segir lífið alllt hafa gjörbreyst á augnabliki. Hún verður á Íslandi í vetur til að berjast við meinið.
Ólöf tók sér hlé frá stjórnmálastarfi í fyrra og flutti til Genfar ásamt eiginmanni sínum Tómasi Má Sigurðssyni. Hann fékk svo fyrir stuttu nýtt starf í New York og stóð til að þau hjónin flyttu þangað á næstu vikum, en þá tóku æðri máttarvöld í taumana, eins og Ólöf orðar það sjálf á vefsíðu sinni þar sem hún greindi frá veikindunum í dag.
„Ég ákvað að fara til læknis við komuna heim af því að ég var orðin svo mikil um mig miðja frekar skyndilega. Á örskotsstundu skiptu fyrri plön engu máli, hversdagslegu verkefnin víkja núna fyrir þeirri stærstu áskorun sem ég hef staðið frammi fyrir. Óboðinn gestur hafði nefnilega sest innra með mér.“
„Gesturinn,“ illkynja æxli, var fjarlægður með skurðaðgerð og nokkurra mánaða lyfjameðferð er nú hafin. Ólöf segir í samtali við mbl.is hafa verið algjörlega grunlaus um æxlið sem var að vaxa innra með henni og er þakklát fyrir að hafa þrátt fyrir það leitað til læknis.
„Ég hef haft það þannig í lífinu að maður eigi alltaf að harka af sér og ekki kvarta og kveina yfir engu, en ég lærði af þessu að ef það er eitthvað sem manni finnst skrýtið, þá á maður að fara til læknis og ekki vera með neinn þykjustu hetjugang. Það er bara asnalegt. Síðan eiga allir að fara í reglulega skoðun,“ segir Ólöf.
Fyrir þá sem ekki hafa reynt á eigin skinni er erfitt að ímynda sér hvernig það er að fá slík ótíðindi í andlitið svo lífið tekur algjöra U-beygju. „Það er rosalegt. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því,“ segir Ólöf. „Maður telur sig vita það en trúir því í raun aldrei að það gerist neitt fyrir mann sjálfan, en þegar það gerist og þú færð svona fréttir, þá breytist allt.“
Ólöf segir að þrátt fyrir allt sjái hún líka ýmislegt jákvætt við þetta. „Þetta er ekki bara vont, þetta er líka gott, því maður þarf að kunna að meta það sem maður hefur. Kannski hljómar klisjukennt að segja þetta, en það er bara rétt.“
Vegna veikindanna ákváðu þau hjóni að vera heima í allan vetur þar sem þau ætli að takast á við þetta, öll saman, en Ólöf á fjögur börn.
„Það er ofboðslega gott að vera heima þegar svona gerist, bæði hjá fjölskyldu og börnunum mínum númer eitt, tvö og þrjú, en líka hjá vinum. Það er mikilvægt að vera ekki einn og maður finnur það alltaf betur og betur hvað það skiptir miklu máli að eiga góða að. Þetta komu okkur ofboðslega á óvart, en við bara vinnum úr því. Það er enginn bilbugur á okkur og við höfum fulla trú á því að þetta muni ganga yfir. Það tekur bara í, á meðan það gerir það.“
Ólöf segist ekki ætla að velta sér upp úr veikindunum, en hún ætli hins vegar að sigrast á þeim. „Ég finn um leið hvað jákvæðni og stilltur hugur skiptir miklu máli þegar áföll ríða yfir. Að reyna að ná stjórn á hugsunum sínum og laða fram það jákvæða í lífinu hjá mér sjálfri og öllum þeim sem eru í kringum mig,“ skrifar hún á vefsíðu sína í dag.
Aðspurð segist hún gera ráð fyrir að lyfjameðferðin standi fram að jólum, sex sinnum á þriggja vikna fresti. „Svo eftir það held ég að ég þurfi bara að hvíla mig. Maður þarf að nota allt sitt andlega þrek núna til að vinna með líkamanum á móti, svo þegar það er búið þarf maður að byggja sig upp.“
Ólöf segist hafa fulla ástæðu til bjartsýni að lokinni lyfjameðferðinni. Fram að þessu hafi allt gengið eftir áætlun, meira að segja hárið sem fjúki nú af henni en á morgun ætlar hún að láta raka það alfarið af og segir að hressandi verði að láta íslenska síðsumarið leika um kollinn. „Það er svakalegt að vera komin með hárið á sér í hendurnar, svo ég ætla bara að láta taka það allt saman. Ég er mjög eyrnastór og er eiginlega svolítið forvitin að sjá hvort fólk í kringum mig verður hrætt við mig þegar hárið er farið. Frá og með morgundeginum verður Frú Eyrnastór mætt á staðinn,“ segir Ólöf og hlær.
Hún tekst því á við erfiða áskorun af einarðri baráttugleði, en segir að næsta árið muni glíman við veikindin taka alla hennar krafta. „Þau verða ekki mikið stærri verkefnin í lífinu en þetta.“