Óskar eftir að greiða rétt laun

Veitingastaðurinn 73 stendur við Laugaveg 73.
Veitingastaðurinn 73 stendur við Laugaveg 73.

„Þetta var nú pínulítið pot í þá sem stunda þessi vinnubrögð,“ segir Arnbjörn Kristjánsson, einn af eigendum veitingastaðarins 73 á Laugavegi, en atvinnuauglýsing sem staðurinn setti á Facebook í gær hefur vakið mikla athygli.

Í auglýsingunni er leitað eftir fólki sem hefur áhuga á að fá greitt samkvæmt löglegum taxta og „minni áhuga á lélegu jafnaðarkaupi“, en möguleg brot á ungu starfsfólki í veitingageiranum hefur vaktið athygli undanfarna daga. Staðurinn leitar nú að þjónum í vaktavinnu bæði í hlutastarf og fullt starf. 

Aðspurður segir Arnbjörn að það sé mikilvægt að fræða starfsfólk sitt um fylgifiska jafnaðarkaups. „Ég hef starfað í veitingageiranum í fjöldamörg ár, m.a. á jafnaðarkaupi, og maður áttar sig alltaf á eftir á hversu illa er farið með mann,“ segir Arnbjörn, sem á staðinn ásamt móður sinni Jóhönnu Arnbjörnsdóttur. 

Arnbjörn segir að hann láti alltaf nýtt starfsfólk vita að ekki sé notast við jafnaðarkaup á staðnum. „Margir skilja þetta þó ekki alveg og fer sjálft fram á jafnaðarkaup. Við segjum þeim hvað við borgum samkvæmt taxta og margir vilja þá frekar fá ákveðna upphæð á tímann, haldandi að það sé betra.“

Þó svo að talan hljómi betur í jafnaðarkaupi þarf að taka með í reikninginn álag og orlof sem leggst ofan á launataxtann. „Þegar það leggst ofan á kemst fólk að því að talan sem þau fóru fram á er lægri en það sem er í boði hér,“ segir Arnbjörn sem segist hafa borgað um fimm starfsmönnum jafnaðarkaup síðan hann opnaði 73. „Allir þeir starfsmenn báðu sjálfir um jafnaðarkaup. Ég hef þá reynt að útskýra fyrir þeim muninn og jafnvel hringt í foreldra þeirra unglinga sem koma hingað og vilja jafnaðarkaup. Hef beðið þau um að útskýra þetta fyrir þeim og reyna að fá þau til að skilja af hverju maður vill ekki vera á jafnaðarkaupi.“

Arnbjörn segir að viðbrögðin við auglýsingunni hafi verið mikil. „Ég verð næstu tvo daga að lesa tölvupósta held ég bara,“ segir hann, en atvinnuauglýsingin birtist á Facebook síðu 73 í gær. 

„Ég hef alltaf leitast eftir því að greiða löglegan taxta, ekki því að ég sé eitthvað góðmenni, heldur því ég hef engan áhuga á að fá brjálað starfsfólk í hausinn eftir eitt eða tvö ár sem hefur fattað að það var á lægri taxta,“ segir Arnbjörn. „Það er mikilvægt í þessum rekstri að allt sé á hreinu og að maður þurfi ekki að hafa áhyggjur af fortíðardraugum.“

Arnbjörn segir jafnframt að starfsfólkið sé ánægðara ef það veit að það er á sanngjörnum og réttum launum. „Starfsfólkið þarf að vera ánægt, það er það sem þetta snýst um.“

Auglýsinguna má sjá hér að neðan.

Post by 73.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka