Ábyrgðin liggur hjá vinnuveitanda

Ólafía Björk Rafnsdóttir, formaður VR.
Ólafía Björk Rafnsdóttir, formaður VR. mbl.is

„Við höfum orðið var við þetta í ríkara mæli að ungmenni þekki ekki réttindi sín og er þar af leiðandi hlunnfarið af vinnuveitanda,“ segir Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, í samtali við mbl um launamál og réttindi ungmenna á vinnumarkaði. „Það þarf fræðslu og þess vegna ætlum við að leggja af stað með herferð í haust sem heitir „Skóli lífsins“ og snýst fyrst og fremst um að vekja athygli á réttindum og skyldum á vinnumarkaði og þá aðallega fyrir ungt fólk og þá sem eru nýir á vinnumarkaði.“

VR hefur í gegnum árin heimsótt alla grunnskóla og nokkra framhaldsskóla til þess að fræða ungmenni um launamál og réttindi sín. Að sögn Ólafíu fór VR í yfir 200 heimsóknir á síðasta ári. „Það hefur þó ekki verið nóg og þess vegna ætlum við í þessa herferð í haust.“

Ólafía leggur þó áherslu á að ábyrgðin er hjá atvinnurekandanum sjálfum en ekki starfsfólkinu þegar kemur að réttindum og skyldum á vinnumarkaði.  

Mikilvægt að byggja sjálfstraust ungmenna

Ólafía segir að mikilvægt sé að byggja upp sjálfstraust ungmenna til þess að leita réttar síns. „Þau þurfa að þora að spyrja spurninga og það verður að vera eðlilegt að þau kanni réttindi sín og viti síðan hvaða laun þau eiga að fá áður en þau hefja störf. Ungmenni eru oft svo ánægð að fá einhverja vinnu að þau treysta sér ekki til þess að spyrja um launin.“

Ólafía bætir við að launamál séu ekki eina vandamálið sem ungmenni lendi í á vinnumarkaði. „Til dæmis heyrum við reglulega af vinnustöðum sem eru ekki með vaktaplan fram í tímann heldur kalla starfsfólk til þegar atvinnurekandanum hentar. Þetta siðferði er bara ekki í lagi.“

Jafnaðarkaup þarf að uppfylla viss skilyrði

Aðspurð um jafnaðarkaup segir Ólafía að það finnist ekki í kjarasamningum VR. „Það er ekkert sem heitir jafnaðarkaup í kjarasamningum VR, en það er ekki bannað að greiða jafnaðarkaup svo lengi sem það uppfyllir skilyrði um lágmarkstaxta og ákvæði um yfir- og eftirvinnukaup.“

Að sögn Ólafíu er kveðið á lágmarkstaxta á milli klukkan 7 og 18 á virkum dögum í kjarasamningum VR. „Svo er stundum verið að rugla þessu saman með því að setja dag- og yfirvinnu saman, það er bara ekki að skila sér.“

Ólafía segir að VR mæli ekki með jafnaðarkaupi nema það sé alveg upplýst hvað felst í því. „Því miður sjáum við þá þróun að vinnuveitendur bæta alltaf meiru og meiru inn í þetta jafnaðarkaup. Launaseðillinn á bara að vera skýr. Hvað er dagvinna og hvað er eftirvinna og svo eiga taxtarnir náttúrlega að vera mismunandi eftir hvort unnið sé um helgi, virkan dag eða á stórhátíð. Þegar þetta fellur allt inn í jafnaðarkaup er sýnileikinn ekki eins áþreifanlegur.“

Ólafía vill einnig benda á að nú fái margir launaseðilinn inn á heimabanka og veldur það því oft að fólk skoði hann ekki. „Ungt fólk notar ekki heimabanka í eins ríkum mæli og eldra fólk. Þar af leiðandi mæli ég sérstaklega með því að fólk biðji um að fá launaseðilinn sendan heim í pósti. Þá eru meiri líkur á að hann verði skoðaður og greindur.“

Fá margar fyrirspurnir

Að sögn Ólafíu fær VR í auknum mæli fyrirspurnir frá ungu fólki. Ólafía segir það gott því þá sé hægt að leiðbeina því. 

Aðspurð um mál þegar starfsfólki er sagt upp fyrir að hafa leitað réttar síns segir Ólafía það vera alvarlegt mál. „Þetta er líka ástæðan fyrir því að þau eru oft hrædd og þora ekki að tjá sig. Þess vegna er svo brýnt að vekja athygli á þessu með myndarlegum hætti.

Ábyrgðin er hjá atvinnurekandanum og það á að vera eðlilegt að fá laun greidd eftir kjarasamningi. Maður á ekki að þurfa að fylgja því eftir sí og æ.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert