Reiðkonan Aníta Margrét Aradóttir, sem hefur undanfarna tíu daga tekið þátt í kappreiðinni Mongol Derby í Mongólíu, lauk keppni í dag.
Aníta kom í mark í morgun og hafnaði í 19. sæti. Kappreiðin er 1000 km löng. Hún er jafnframt talin lengsta og erfiðasta kappreið heims.
Í viðtali sem birtist á Facebook síðu Anítu segist hún vera ánægð en þreytt. „Ég er rosalega ánægð að hafa náð að klára keppnina. Ég ætla að sofa vel og lengi en fyrst ætla ég að fara að fá mér góðan kvöldmat. Ég fékk að fara í sturtu rétt áðan og það var guðdómlegt.“
Fjölmargir knapar hafa slasast í keppninni og aðrir hætt þátttöku vegna þreytu. Aníta náði að klára keppnina áfallalaust. „Ég er alveg heil heilsu og ekki einu sinni með rasssæri. Ég er bara pínu kvefuð og sólbrunnin á nefinu. Ég datt aldrei af baki í keppninni og er stolt af því.“
Hér má sjá Facebook síðu Anítu.
Sjá frétt mbl.is : Aníta nálgast markið