Bogfrymill breytir ekki hegðun manna

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Hann segir að sníkjudýrið bogfrymill sé …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Hann segir að sníkjudýrið bogfrymill sé magnað fyrirbæri. mbl.is/Kristinn

Haraldur Briem sóttvarnalæknir segist ekki kannast við það að sníkjudýrið bogfrymill, öðru nafni toxoplasma, geti breytt hegðun manna. Forsætisráðherra ræddi sníkjudýrið, sem er algengur sníkill í köttum, í útvarpsviðtali á Bylgjunni í gær og sagði að það gæti leitt til breytinga á hegðunarmynstri fólks – jafnvel heilla þjóða.

„Þetta getur verið það sem við köllum klínískt vandamál hjá einstaklingum, það er alveg klárt. En að þetta hafi þessi gígantísku áhrif [breyti hegðun fólks], það kannast ég ekki við,“ segir Haraldur í samtali við mbl.is.

Í þættinum Reykjavík síðdegis fjallaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra m.a. um mikilvægi þess að vernda heilnæmi íslenskra landbúnaðarvara, m.a. með því að nota ekki aukefni á borð við stera og hormóna við kjötframleiðslu. Það væri ekki síður mikilvægt að forðast ýmiskonar sýkingar sem væru algengar víða um heim og væru ekki aðeins skaðlegar dýrum heldur einnig fólki.

„Það er til að mynda til veira sem veldur því að hegðun fólks breytist. Ef menn borða t.d. kjöt erlendis sem er ekki nógu vel eldað sérstaklega, þá eiga menn á hættu að innbyrða þessa sýkingu og hún getur leitt til breytingar á hegðunarmynstri. Þannig að menn hafa jafnvel velt upp þeirri spurningu og rannsakað það hvort þetta kunni að vera að breyta hegðun heilu þjóðanna. Þetta hljómar eins og vísindaskáldsaga,“ sagði Sigmundur í þættinum í gær.

Aðspurður sagði ráðherra að sýkingin væri algeng víða, m.a. í Mið-Evrópu, en hann nefndi Frakkland og Belgíu sem dæmi. Ísland, Noregur og Bretland væru hins vegar á meðal landa sem skæru sig úr hvað þetta varðar. „Þar eru menn nokkuð óhultir fyrir þessu kvikindi,“ sagði Sigmundur Davíð sem hvatti viðmælendur sína um leið til að ræða við lækna og vísindamenn til að fræðast meira um sníkjudýrið.

Sýkingin viðráðanleg en breytir ekki hegðun

„Ég kannast nú ekki við það. Þetta eru nýjar fréttir sem hafa ekki borist mér, að þetta hafi slík áhrif,“ segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is er hann er spurður hvort sníkjudýrið geti haft þessi áhrif á hegðun fólks.

„Þessi baktería er náttúrlega út um allt. Ég get ekki svarað svona; þetta er alveg nýtt fyrir mér að þetta valdi hegðunarbreytingum hjá heilum þjóðum,“ segir Haraldur ennfremur og bætir við að þetta komi ekki fram í þeim fræðigreinum eða bókum sem hann hafi lesið.

Haraldur segir að bogfrymill geti valdið eitlabólgu og tekið sér bólfestu í miðtaugakerfinu. „Þetta er viðráðanlegt og það eru til lyf við þessu,“ segir hann.

Hann segir að sýkingin hafi greinst á Íslandi í gegnum tíðina. „Þetta er ekki algengt sem betur fer. Hreinlæti skiptir mjög miklu máli í matvælaiðnaði og auðvitað getur einhversstaðar ekki verið vel um gengið og svona, en að þetta hafi þessi áhrif [breyting á hegðun fólks] er mjög vísindakenndarlegt,“ segir Haraldur.

Fram kemur í grein á vefsíðunni doktor.is, sem hefur yfirskriftina Bogfrymilssótt og meðganga, að bogfrymilssótt, þ.e. sýking með einfrumungnum Toxoplasma gondii, sé einn af þeim sjúkdómum sem geti skaðað fóstur og valdið síðari einkennum hjá börnum. Tekið er fram að toxoplasma geti smitað öll spendýr og eftir fyrstu sýkingu finnist sníkjudýrið í blöðrum í vefjum líkamans. Toxoplasma gondii getur fjölgað sér í þörmum katta og er kötturinn eina dýrið sem getur gefið smit með eggblöðrum sníkjudýrsins í hægðum, að því er segir á síðunni.

Þá kemur fram að fólk geti smitast hvort heldur með eggblöðrum sem berist með kattaskít eða vefjablöðrum úr kjöti.

Virkt eftirlit nauðsynlegt

Aðspurður segir Haraldur mikilvægt að eftirlit sé virkt og gott, það eigi við um innflutning á erlendri matvöru til landsins en ekki síður með íslenskri matvælaframleiðslu. „Menn reyna að standa mjög vel að þessu bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum og hér á landi vonandi líka. En við megum ekki vera í þeirri trú að hér sér endilega alltaf allt í lagi. Við erum líka með innlenda mengun hér í matvælum,“ segir Haraldur og bendir á að smit hafi komið upp hér á landi. Hann nefnir sem dæmi stóran kampýlóbakterfaraldur í kjúklingum sem kom upp árið 2000.

„Með virku eftirliti hefur tekist að koma í veg fyrir stórslys þar og eins með salmonellu og annað, þetta er allt til hér. En þetta er allt spurning um að hafa iðnaðinn í góðu lagi og eftirlitið í góðu lagi. Við erum í nánu samstarfi við Evrópusambandið hvað þetta varðar allt saman og þeir eru að taka sig á þar líka. Þetta horfir nú allt til betri vegar,“ segir Haraldur.

Málið vakið athygli

Sigmundur Davíð fjallar einnig um sníkjudýrið á Facebooksíðu sinni í gærkvöldi. Hann segir að málið hafi vakið nokkra athygli enda sé fyrirbærið magnað. 

„Mýs eða rottur sem smitast af kvikindinu fara að haga sér undarlega og verða auðveld bráð fyrir ketti. Nokkrar rannsóknir hafa sýnt að fyrirbærið hefur áhrif á hegðun manna og vísindarit Royal Society (einna elstu og virtustu samtaka vísindamanna í heiminum) birti umfjöllun um rannsókn þar sem líkur eru leiddar að því að þetta geti haft samfélagsleg áhrif. Hér er grein úr Economist: http://www.economist.com/node/16271339 og hérna er vísað beint í síðastnefndu rannsóknina,“ skrifar Sigmundur Davíð á Facebook.

Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir að bogfrymill sé þekkt baktería sem …
Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir að bogfrymill sé þekkt baktería sem sé að finna víða. Hann kannast hins vegar ekki við það að hún geti breytt hegðun fólks. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert