Fiðringur kominn í Bjarna Fel

Bjarni Felixson var um árabil íþróttafréttamaður og tengja margir hann …
Bjarni Felixson var um árabil íþróttafréttamaður og tengja margir hann við ensku knattspyrnuna. Rax / Ragnar Axelsson

Bjarni Felixson er í hugum margra andlit og rödd ensku knattspyrnunnar. Enska úrvalsdeildin hefst á morgun og Bjarni segist alltaf fá fiðring áður en tímabilið hefst. 

„Ég hef haldið með Arsenal síðan árið 1948,“ segir Bjarni. Hann segir að hann hafi fyrst heyrt um enska boltann sem ungur strákur. „Þá var hægt að fá íþróttablað á norsku sem hét Sportsmannen. Þar var ítarlega fjallað um enska boltann og þá sá ég þetta nafn, Arsenal, og þeir voru efstir í deildinni. Svo komst ég seinna yfir bók þar sem talað var um hve Arsenal voru góðir um 1930, því fannst mér tilvalið að halda með þeim. Svo hef ég nokkrar taugar til Liverpool þar sem ég spilaði gegn þeim,“ segir Bjarni.

Í leiknum lék KR gegn Liverpool í Evrópukeppni árið 1964. KR tapaði 0-5 á heimavelli en 6-1 á Anfield Road í Liverpool. Í leikslok stóðu atvinnumennirnir heiðursvörð um áhugamennina í KR og því ber Bjarni eðlilega nokkrar taugar til liðsins. 

Hlustar á boltann í gegnum BBC 

Að sögn Bjarna fylgist hann ekki eins vel með enska boltanum og hann gerði. „Í dag hlusta ég meira á BBC. Það er nokkurs konar afturhvarf til fortíðar. Ég fæ mikið út úr því. Þetta er einhver nostalgía. Ég byrjaði að fylgjast með boltanum í gegnum BBC World Service. Svo þegar aldurinn færist yfir þá leitar maður í upprunann og ég hef virkilega gaman af því að hlusta á lýsendur lýsa leikjunum þar,“ segir Bjarni. 

Útsendingar hófust frá enska boltanum hér á landi árið 1968-1969. Þá voru leikir sýndir einu sinni í viku. „Hin Norðurlöndin gátu sýnt beint frá enska boltanum í gegnum landsnet en við ekki. Þá fór þáverandi dagskrárstjóri, Steindór Hjörleifsson, á fund ásamt Norðurlandaþjóðunum í London. Úr varð að við vorum með í þessum pakka með þeim og úr varð að við reyndum þetta,“ segir Bjarni. 

Óhætt er að segja að tilraunin hafi heppnast vel, þar sem stór hluti þjóðarinnar styður lið í ensku knattspyrnunni. Fyrsta beina útsendingin var frá ensku deildabikarkeppninni árið 1981, þegar Manchester City og Tottenham öttu kappi. Var það raunar fyrsta beina útsendingin á Íslandi. 

Hafa fjarlægst rætur fótboltans 

Aðspurður segir Bjarni að honum lítist illa á þá markaðsvæðingu sem einkennt hefur ensku knattspyrnuna undanfarin ár. „Mér finnst knattspyrnan fjarlægjast grasrótina býsna hratt og það er miður. Félögin virðast ekki vera lengur í tengslum við stuðningsmennina. Þetta eru ekki lengur íþróttafélög, heldur fyrirtæki í eigu alþjóðlegra fjárglæframanna. Maður sér víða mótmæli í borgum og bæjum á Englandi þar sem enn er verið að hækka miðaverð. Það þarf að standa undir þessum mikla innflutningi á leikmönnum á kostnað stuðningsmanna,“ segir Bjarni. 

Horfir á þýska boltann til að sjá góðan fótbolta

Hann segir að hann hafi síðustu árin einnig fylgst með þýska boltanum. „En ég fylgist náttúrlega mikið með enska boltanum. Þetta er í blóðinu. En ef ég ætla að horfa á góðan fótbolta reyni ég heldur að horfa á leiki með Bayern München eða Borussia Dortmund,“ segir Bjarni. 

Hann segist fylgjast vel með Arsenal en minna með öðrum liðum í ensku úrvalsdeildinni. „Einhvern veginn finnst mér eins og þau fjögur lið sem voru í efstu sætunum í fyrra verði það aftur núna. Ég held að Arsenal verði rétt undir toppnum en nái ekki alveg á toppinn. Það er ekki nóg að spila fallegan fótbolta. Það gengur frekar í Þýskalandi. Í Englandi þarftu líka að hafa svolitla hörku,“ segir Bjarni.  

Bjarni heldur með Arsenal en heldur að liðið muni ekki …
Bjarni heldur með Arsenal en heldur að liðið muni ekki vinna deildina. AFP
Sem polli rakst Bjarni Felixson á norskt tímarit um enska …
Sem polli rakst Bjarni Felixson á norskt tímarit um enska fótboltann. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert