„Það er núna verið að vökva gróðurinn í bænum svo hann verði í fínum blóma í góða veðrinu á morgun,“ segir Jóhanna M. Hjartardóttir, menningar- og frístundafulltrúi Hveragerðis. Bæjarhátíðin Blómstrandi dagar hefst í dag og á morgun verður Ísdagur Kjöríss haldinn í bænum.
Dagskráin er fjölbreytt og verður boðið upp á allt frá bréfdúfusýningu til söguferða í fornbílum. „Það verða margar listasýningar í bænum. Á morgun verður svo haldin tískusýning í grunni Edens áður en Magni Ásgeirsson og Pétur Örn ætla að rokka á sama stað. Síðan færum við okkur í skrúðgarðinn þar sem Hljómsveitafélag Hveragerðis stígur á stokk. Sú sveit er skipuð strákum úr mörgum landsþekktum hljómsveitum, til dæmis Á móti sól,“ segir Jóhanna.
Hápunktur hátíðarinnar verður svo annað kvöld þegar Ingó Veðurguð stýrir brekkusöng. „Síðan verður haldin stórgóð og flott flugeldasýning.“
Jóhanna segir bæinn vera í miklum blóma. „Auðvitað er aðeins tekið að hausta en það er margt sem blómstrar núna og bærinn er mjög fallegur.“
Hún segir að búist sé við nokkur þúsund gestum. „Það koma alltaf hingað margir, sérstaklega vegna ísdagsins á morgun. Þar verður ókeypis ís með mismunandi bragðtegundum. Það er margt spennandi í boði og fólk kemur til að smakka ísinn.“
Hátíðinni lýkur svo á sunnudagskvöldið þegar Bergþór Pálsson og Brynhildur Guðjónsdóttir syngja franska götusöngva í Hveragerðiskirkju.
Sjá dagskrá daganna á vef Hveragerðis.