Fjórir í haldi vegna árásar í Vogum

Árásin átti sér stað í heimahúsi í Vogum á Vatnsleysuströnd.
Árásin átti sér stað í heimahúsi í Vogum á Vatnsleysuströnd. Ljósmynd/Vogar

Fjórir karlmenn sitja nú í gæsluvarðhaldi vegna frelsissviptingar og grófs ofbeldis í heimahúsi í Vogum á Vatnsleysuströnd. Árásin átti sér stað miðvikudaginn 6. ágúst en mennirnir voru handteknir á þriðjudag. DV greindi frá málinu í dag.

Réðust þeir á 18 ára karlmann og beittu hann grófu líkamlegu ofbeldi. Maðurinn þurfti þó ekki að fara á sjúkrahús, segir Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. 

Þrír mannanna eru á svipuðum aldri og brotaþoli en einn þeirra er nokkuð eldri. Brotin voru framin á heimili eins þeirra. Að sögn Friðriks Smára voru einhver tengsl á milli mannanna, en þau voru þó ekki veruleg.

Mennirnir sitja í gæsluvarðhaldi til 27. ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert