Ofurhetjan Ágústa Vá-Gústa er í forsíðuviðtali Barnablaðsins um helgina. Ágústa var aðeins sex ára gömul þegar hún greindist með heilaæxli og eyddi um ári í erfiða krabbameinsmeðferð þar sem hún gisti 186 nætur á sjúkrahúsi. Þar fór hún í yfir 40 svæfingar, fjórar aðgerðir, var 88 daga í einangrun og fimm daga í öndunarvél.
Vá-Gústa lét þetta hins vegar ekki stoppa sig og sigraðist á krabbameininu, rétt eins og hún sigraði bleika skrímslið í bókinni sem frænka hennar skrifaði um hana á spítalanum.
Sigríður Þorsteinsdóttir, móðir Ágústu, hyggst hlaupa tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu og safna áheitum fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna. Hægt er að heita á hana á vefsíðu Hlaupastyrks.