Beittu rafbyssu á kynfæri

Árásin átti sér stað í heimahúsi á Vogum á Vatnsleysuströnd.
Árásin átti sér stað í heimahúsi á Vogum á Vatnsleysuströnd. Ljósmynd/Vogar

Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð héraðsdóms um að maður sem grunaður er um aðild að grófri líkamsárás og frelsissviptingu þann 6. ágúst síðastliðinn, skuli áfram sæta gæsluvarðhaldi og einangrun til 27. ágúst. 

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að maðurinn er grunaður um hafa haldið fórnarlambinu nauðugu í 6-8 klukkustundir, kýlt hann, beitt rafbyssu gegn honum, þvingað hann til að drekka smjörsýru og látið hann sleikja frunsu.

Var rafbyssunni meðal annars beitt á háls hans og kynfæri þannig að fórnarlambið missti þvag. Í lögregluskýrslu segir fórnarlambið að tveir aðrir menn hafi verið að verki ásamt manninum sem situr í gæsluvarðhaldi. Auk þess hafi kona verið á staðnum þar sem hann var pyntaður.

Mennirnir eiga að hafa sparkað í hann, skorið hann í magann og hótað að nauðga honum. Þá hafi þeir stolið af honum úlpu og úri. 

Við húsleit sem síðar var framkvæmd á staðnum, fannst smjörsýra, haglabyssa, meint þýfi og blóðblettir á gólfi. 

Maðurinn sem situr í gæsluvarðhaldi á yfir höfði sér allt að 16 ára fangelsi ef hann er fundinn sekur. Telur lögreglan að brýnir rannsóknarhagsmunir séu í húfi og leita þeir nú fimmta mannsins í málinu. 

Rökstuddi lögreglan kröfu sína um gæsluvarðhald með því að hætta væri á því að sakborningurinn gæti torveldað rannsókn málsins, meðal annars með því að hafa áhrif á vitnisburð vitorðsmanna eða vitna.

Sjá frétt mbl.is: Fjórir í haldi vegna árásar í Vogum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert