Risaskriðan enn til rannsóknar

Flogið var á þyrlu inn í Öskju í gær m.a. …
Flogið var á þyrlu inn í Öskju í gær m.a. til að sækja bát með s.k. fjölgeislamæli sem notaður var til að rannsaka vatnsbotninn síðustu daga. mbl.is/Árni Sæberg

Berghlaupið sem féll í Öskjuvatn að kvöldi 21. júlí er eitt stærsta berghlaup á sögulegum tíma á Íslandi og vísindamenn eru enn að rannsaka umfang þess. Ljósmyndari mbl.is flaug í gærkvöldi með vísindamönnum inn í Öskju og tók meðfylgjandi myndasyrpu.

Markmið ferðarinnar í gær var að mæla vatnsbotninn og sækja mælingabát sem settur var á vatnið síðast liðinn fimmtudag. Stór hluti af vatninu var mældur árið 2012, í tengslum við ísbráðnun um miðjan vetur en þá var mikil hveravirkni á botninum.

„[Við] sjáum núna að það er rúmlega 2 metrum dýpra. Það segir okkur að skriðan ofan í vatninu er einhvers staðar á bilinu 25-35 milljón rúmmetrar,“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur, sem var á svæðinu þegar skriðan féll í júlí og flaug inn eftir í gær til að fylgja rannsóknunum eftir.

Ármann segir að a.m.k. þrír af stærstu hverunum á botni vatnsins séu „dauðir“ en samanburður á þeim gögnum sem fengust við kortlagningu botnsins þá og nú gerir vísindamönnum kleift að sjá nákvæmlega hvar skriðan hefur farið í vatninu. 

Ármann segir mikilvægt að vita hvað er að gerast á vatnsbotninum á jafn virku eldfjalli og Öskju, enda sé víst að þar muni verða fleiri eldgos og skriðuföll. „Við erum betur í stakk búin til að skilja þessa viðburði og hvers vegna þeir gerast og afleiðingar þeirra,“ segir hann.

Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands við mælingar í …
Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands við mælingar í Öskju í gær. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka