Tugir lögreglu-, björgunar- og slökkviliðsmanna, auk borgarstarfsmanna, munu annast löggæslu á Menningarnótt. Ágúst Svavarsson, aðalvarðstjóri í aðgerða- og skipulagsdeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, mun hafa yfirsýn yfir gæsluna og segir að með jákvæðu hugarfari gangi hlutir mun betur.
Ágúst segir að í menntamálaráðuneytinu verði að venju stjórnstöð löggæsluaðila þar sem gestir Menningarnætur geti einnig leitað hjálpar. Hann nefnir að þar geti foreldrar einnig leitað aðstoðar vegna týndra barna ef svo beri undir.
„Það er mikilvægt að menn komi með góða skapið og hafi biðlund. Það er mikið af fólki á ferðinni og sérstaklega í kringum lokunarkjarnann. Ef menn sýna smá biðlund þá gengur þetta,“ segir Ágúst.
Gönguhópar lögreglu og björgunarsveitamanna munu vera sjáanlegir víða á höfuðborgarsvæðinu í kvöld en að sögn Ágústs verður sérstök einbeiting lögð á unglingadrykkju. „Við verðum duglegir að hella niður víni þar sem það á við,“ segir Ágúst.
Aldrei hefur verið lokað fyrir umferð um höfuðborgarsvæðið í jafn stórum stíl og nú eins og gert var kunnugt um í frétt mbl.is. Lokanirnar eru gerðar til að tryggja öryggi fólks að sögn Einars Bárðarsonar, forstöðumanns Höfuðborgarstofu.