Vegna umbrotanna undir Dyngjujökli í norðanverðum Vatnajökli hefur viðbúnaðarstig almannavarna verið hækkað i neyðarstig. Þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar funduðu í samhæfingarmiðstöð almannavarna í Skógarhlíð síðdegis í dag og kynntu sér framvindu umbrotanna og viðbrögð.
Þau Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sátu fund með Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra og Víði Reynissyni, deildarstjóra almannavarna. Fundinn sátu einnig vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og fulltrúar ýmissa stofnana og viðbragðsaðila, segir í frétt á vef innanríkisráðuneytisins.
Vegum beggja vegna Jökulsár á Fjöllum við Dettifoss hefur verið lokað og svæðið við Dettifoss í þar norður af hefur verið rýmt. Þá eru starfsmenn Vegagerðarinnar tilbúnir með tæki til að rjúfa Hringveginn við brúna yfir Jökulsána við Grímsstaði svo og í Öxarfirði ef til flóðs kemur. Með því á að freista þess að leiða áraun flóðs framhjá brúnum og verja þær.
Flogið var á flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF yfir svæðið í gær. Flugmálayfirvöld hafa bannað flug á stóru svæði yfir Vatnajökli og þar norður og suður af.