Verja brúna yfir Jökulsá á Fjöllum

Starfsmenn Vegagerðarinnar vinna við að verja brúna.
Starfsmenn Vegagerðarinnar vinna við að verja brúna. mbl.is/Baldur

„Við erum að gera varnargarð til að hlífari vestari stöplunum á brúnni. Við verðum búnir einhvern tímann á morgun,“ segir Sigurður Jóhannes Jónsson, yfirmaður Vegagerðarinnar á svæðinu í nágrenni við brúna yfir Jökulsá á Fjöllum, um framkvæmdir sem nú standa yfir.

Tilefnið er hætta á flóði vegna eldgossins í Dyngjujökli.

Blaðamaður mbl.is ræddi við Sigurð Jóhannes um hálfsjöleytið í kvöld.

Myndi gefa sig í stórflóði

Sigurður lýsir framkvæmdunum svo:

„Þetta eru tveir garðar, ofan og neðan við veg. Þegar við rjúfum vegin og áinn rennur vestanmegin við brúna - miðað við að flóðið verði ekki of stórt - gæti þetta hjálpað til við að koma í veg fyrir að flóðið grafi undir brúnni. Grafinn hefur verið þriggja metra djúpur skurður sem verður fylltur stórgrýti. Þessi varnargarður verður 20-40 sentimetrum hærri en vegurinn og er örlítið hærri en varnargarðurinn sem er fyrir.

Við reiknum með að garðurinn sem er fyrir muni gefa sig. Þessar aðgerðir miðast við lágmarksflóð, 3.000 til 5.000 rúmmetra á sekúndu. Sé flóðið meira getum við ekkert gert. Ég hef litla trú á að við höfum þá eitthvað í ána að gera,“ segir Sigurður Jóhannes.

Hann segir enga leið að spá fyrir um hvort brúin muni gefa sig. 

Sigurður Jóhannes Jónsson.
Sigurður Jóhannes Jónsson. mbl.is/Baldur
Nýr varnargarður grafinn norðan við brúna.
Nýr varnargarður grafinn norðan við brúna. mbl.is/Baldur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert