„Fréttir um gos eru misvísandi. Ef til vill er hafið gos undir jökli, en ekkert bendir þó til þess, ef skoðuð eru gögn um rennsli í Jökulsá á Fjöllum við Upptyppinga,“ skrifar Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur á bloggsíðu sína um jarðhræringarnar í norðanverðum Vatnajökli.
Haraldur segir að Jökulsá á Fjöllum sýni sína venjulegu daglegu sveiflu, eða frá um 220 til 150 rúmmetrum á sekúndu. Enginn vöxtur sé þar enn.
Þá segir Haraldur að stóri skjálftinn í nótt, sem var af stærðinni 5,3, hafi verið undir öskjubrúninni á Bárðarbungu og á um 5,3 km dýpi.
„Er hann vegna hreyfinga á hringbrotinu, sem afmarkar öskjuna, eða vegna enn dýpri hreyfinga? Það verður fróðlegt að sjá hvaða tegund af skjálfta þetta er: lóðrétt misgengi eða önnur hreyfing,“ skrifar Haraldur á síðuna.