„Það er gríðarleg spenna í loftinu“

Justin Timberlake tekur lagið í Kópavogi í kvöld.
Justin Timberlake tekur lagið í Kópavogi í kvöld. Mynd/AFP

Ísleifur Þórhallsson, markaðs- og framkvæmdastjóri tónlistar- og viðburðasviðs Senu, segir að mikil tilhlökkun sé í loftinu í aðdraganda Justin Timberlake-tónleika sem fara fram í Kópavogi í kvöld. „Það er gríðarleg spenna í loftinu, maður finnur það,“ segir Ísleifur.

Langur aðdragandi hefur verið að tónleikunum en húsnæðið var tekið fyrir og metið af starfsmönnum Timberlakes fyrir talsvert löngu segir Ísleifur. 

Tónleikarnir sem Timberlake heldur í kvöld eru síðustu tónleikar hans í Evróputúr sínum og einnig þeir síðustu sem fara fram í Evrópu í langan tíma að sögn Ísleifs. Tónleikarnir verða sýndir í beinni útsendingu á vef Yahoo.com en um 25 til 30 manns verða á tónleikunum vegna útsendingarinnar.

Ísleifur segir að sökum þess að tónleikarnir verða í beinni útsendingu sé ekki ólíklegt að Timberlake hefji tónleikana á slaginu níu.

Hann nefnir einnig að mikil ánægja sé á meðal starfsfólks Timberlakes með skipulag og viðbúnað á svæðinu. Fyrir tónleikahaldara má ætla að það sé mikið hrós. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert