Aldrei hafa fleiri farþegar nýtt sér þjónustu Strætó bs. á einum degi en á Menningarnótt í ár. Ákveðið hefur verið að efla enn frekar þjónustu strætó á Menningarnótt á næsta ári.
„Heilt yfir gekk allt mjög vel fyrir sig og Strætó bs. þakkar þeim sem tóku sér far með vögnunum fyrir þolinmæði og létta lund. Í ár var bryddað upp á þeirri nýjung að aka frá Kirkjusandi að Skólavörðuholti, með viðkomu í Borgartúni. Skemmst er frá því að segja að þetta vakti mikla lukku og þegar hefur verið ákveðið að tvöfalda fjölda vagna sem aka munu þá leið á Menningarnótt.
Ljóst er að Strætó er stór hluti af Menningarnótt og mun verða það áfram. Góð reynsla er komin á þjónustuna og Strætó bs. mun gera sitt til að gera upplifun gesta Menningarnætur enn betri,“ segir í fréttatilkynningu frá Strætó.