Veðurstofa Íslands segir að jarðskjálfti sem mældist 5,3 stig hafi orðið í öskju Bárðarbungu á fimm km dýpi kl 00:09 í kvöld. Þetta er stærsti skjálfti sem hefur mælst síðan jarðhræringarnar hófust í eldstöðinni fyrir viku.
Fram kemur í tilkynningu að EMSC í Evrópu og GEOFON í Potsdam í Þýskalandi hafi staðfest mælinguna.
Tekið er fram að órói hafi ekki aukist í kjölfar skjálftans. Veðurstofa Íslands heldur áfram að fylgjast grannt með ástandinu.