115 þúsund fengu far með strætó

Hátt í 115 þúsund manns nýttu sér þjónustu Strætó í …
Hátt í 115 þúsund manns nýttu sér þjónustu Strætó í tengslum við Menningarnótt og tónleika Justins Timberlake. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hátt í 115 þúsund manns nýttu sér þjónustu Strætó í tengslum við Menningarnótt og tónleika Justins Timberlake. Aldrei hafa fleiri tekið strætó á einni helgi og þykir þátttaka Strætó bs. hafa tekist vel. Kolbeinn Óttarsson Proppé, upplýsingafulltrúi Strætó bs., segir í samtali við mbl.is að vel hafi gengið að flytja farþega heim af atburðunum tveimur.

Hátt í einn og hálfan klukkutíma tók að koma gestum Menningarnætur heim eftir að dagskrá lauk á laugardagskvöldið og þá tók rúman klukkutíma að flytja tónleikagesti frá Kórnum og að skiptistöðvum og um hálftíma í viðbót að aka þeim heim í sín hverfi.

Tíu vagnar í biðstöðu til að anna eftirspurn

Um 100 þúsund manns tóku strætó til og frá miðbænum á Menningarnótt og hafa aldrei fleiri nýtt sér strætó á einum degi en á þessum degi í ár. Miðbærinn iðaði af lífi og þar sem hann var meira og minna lokaður fyrir umferð, hafa eflaust margir leitað á náðir Strætó.

Gagnrýnisraddir heyrðust eftir Gay Pride frá svekktum farþegum sem horfðu á eftir fullum vögnum aka framhjá biðskýlum og þurftu þeir að bíða eftir næsta vagni eða vögnum. Kolbeinn segir að eflaust hafi einhverjir þurft að bíða eftir næsta vagni á Menningarnótt en þó hafi tíu vagnar verið á ferðinni til bregðast við ef sérstaklega mikið var að gera.

Tónleikagestum ekið burt í 35 vögnum

Í ár var bryddað upp á þeirri nýjung að aka frá Kirkjusandi að Skólavörðuholti, með viðkomu í Borgartúni. Í tilkynningu sem Strætó bs. sendi frá sér á sunnudag kom fram að þetta hefði vakið mikla lukku og þegar hefði verið ákveðið að tvöfalda fjölda vagna sem aka þá leið á Menningarnótt 2015.

Alls voru 35 vagnar nýttir í að tæma tónleikasvæðið eftir tónleika Justins Timberlake í gær en 14 vagnar sáu um aksturinn fyrir tónleikana. Ekið var frá Mjódd, Smáralind og Víkurhverfi í Kórinn. Strætó bs. var með þrjá vettvangsstjóra á staðnum sem sáu um að allt gengi vel fyrir sig varðandi strætóferðir.

Strætisvagnar sem fluttu og sóttu tónleikagesti í Kópavogi í gær …
Strætisvagnar sem fluttu og sóttu tónleikagesti í Kópavogi í gær voru sneisafullir af fólki. mbl.is/Jón Pétur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert