Ríkissaksóknari hefur ákært tónlistarmanninn Odd Hrafn Stefán Björgvinsson fyrir brot gegn valdstjórninni, en hann er sakaður um að hafa sparkað í lögreglumann í fyrra.
Í ákærunni segir, að Oddur Hrafn, sem er betur þekktur sem Krummi í Mínus, hafi aðfararnótt 12. júní 2013 ráðist með ofbeldi á lögreglumann, sem var við skyldustörf, við Snorrabraut í Reykjavík. Hann sparkaði í hægri fótlegg lögreglumannsins.
Brotið telst varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga. Hún hljóðar svo:
„Hver, sem ræðst með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi á opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu eða út af því, og eins hver sá, sem á sama hátt leitast við að hindra framkvæmd slíks starfa eða neyða starfsmanninn til þess að framkvæma einhverja athöfn í embætti sínu eða sýslan, skal sæta …1) fangelsi allt að 6 árum. [Ef brot samkvæmt þessari málsgrein beinist að opinberum starfsmanni, sem að lögum hefur heimild til líkamlegrar valdbeitingar, má beita fangelsi allt að 8 árum.]2) [Beita má sektum, ef brot er smáfellt.]3)“
Þess er krafist að Krummi verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness á miðvikudag.