Mikael Torfasyni sagt upp

Mikael Torfason
Mikael Torfason mbl.is/Hari

Mikael Torfasyni hefur verið sagt upp störfum sem aðalritstjóra 365 miðla. Samkvæmt heimildum mbl.is hafa hvorki Mikael né Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, sést við störf í morgun.

Heimildir mbl.is herma jafnframt að framtíð tveggja fréttastjóra hjá fyrirtækinu sé óljós. Stutt er síðan Sævar Freyr Þráinsson tók við sem forstjóri 365, en hann tók við starfi Ara Edwald.

Mikael var ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins þann 5.mars 2013 samhliða Ólafi Stephensen, en 16. maí sama ár voru fréttastofur Vísis, Fréttblaðsins, Stöðvar 2 og Bylgjunnar sameinaðar í eina fréttastofu 365 undir stjórn Mikaels. 

Ólafur Stephensen tók við starfi ritstjóra Fréttablaðsins í febrúar 2010, en hann gegndi áður stöðu ritstjóra Morgunblaðsins og 24 stunda. Ekki hefur náðst í Ólaf í kjölfar mannabreytinga í dag, en samkvæmt heimildum mbl.is hefur hann ekki verið viðstaddur starfsmannafundi í dag.

Uppfært: Samkvæmt tilkynningu tekur Sigurjón M. Egilsson nú við starfi fréttaritstjóra 365 miðla. Sigurjón er umsjónarmaður þáttarins Sprengisands á Bylgjunni og hefur einnig starfað sem fréttastjóri Fréttablaðsins. Kristín Þorsteinsdóttir tekur við starfi aðalritstjóra, en hún hefur undanfarið sinnt starfi útgefanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert