Tónleikar Timberlake sprengdu skalann

Hátt í 17.000 manns mættu á tónleika Justin Timberlake í …
Hátt í 17.000 manns mættu á tónleika Justin Timberlake í Kórnum í Kópavogi. mbl.is/Una Sighvatsdóttir

„Þegar ég var 8 ára gamall að læra á gítar, ef einhver hefði sagt mér að ég ætti eftir að spila á Reykjavík, Íslandi fyrir ykkur...“ sagði stórstjarnan Justin Timberlake, auðmjúkur í Kórnum í Kópavogi. Ætla má að mörgum aðdáendum hans hafi liðið eins í gær, því líklega höfðu fæstir gert sér í hugarlund að þeir ættu eftir að upplifa slíka stórtónleika með einni skærustu stjörnu heims í efri byggðum Kópavogs.

Justin bætti því við að hann semji tónlistina sína einn í litlu herbergi og viti aldrei hvort einhver muni hlusta. „Svo ég þakka ykkur fyrir, frá dýpstu hjartarótum. Ég elska ykkur,“ sagði Timberlake. Ástin var gagnkvæm, enda fór ekkert á milli mála að tónlist JT hefur náð hlustum íslenska aðdáenda, sem þekktu hvert einasta lag og tóku hástöfum undir.

Þetta var frumraun Kórsins sem tónleikahallar og hann stóðst prófið. Undirrituð átti sæti í stúku en var þó hálfa tónleikana niðri í salnum og fékk því hvort tveggja í æð, stemninguna á gólfinu og yfirsýn yfir mannhafið sem hreyfðist eins og einn hugur stýrði því. Á hápunktum tónleikanna, sem voru margir, var magnað að sjá hátt í 30 þúsund hendur á lofti, allar sveiflast í takt. Upplifun sem fátíð er á Íslandi.

Hljóðkerfið var gott, en loftræstingin betri

Hluti af töfrunum við stórtónleika sem þessa er stemningin sem byggist upp hægt og bítandi í aðdraganda þeirra. Allra leiðir liggja í sömu átt og í sama tilgangi, og þegar fólksfjöldann dreif að Kórnum úr öllum áttum klukkutímana á undan var titringurinn áþreifanlegur í andrúmsloftinu. GusGus gerðu vel í því að kynda undir mannskapnum og sömuleiðis plötusnúðurinn DJ Freestyle sem tók við af þeim.

Hljóðkerfið var kannski ekki fullkomið, en gott engu að síður, risaskjáirnir til hliðanna með frábærri skerpu og það sem skipti kannski mestu máli, loftræstikerfið virkaði með prýði. Inni í þvögunni verður þó alltaf heitt og sveitt. Einn tónleikagestur féll í yfirlið rétt við fætur blaðamanns áður en JT sjálfur var kominn á svið. Öryggisverðir voru eldsnöggir á staðinn þegar kallað var til þeirra og stuttu síðar var eins og skrúfað væri upp í loftræstingunni.

Justin er maður sem kann sitt fag og því var gerð hæfilega löng kúnstpása eftir upphitunina til að áhorfendur yrðu óþreyjufullir. 20/20 Experience tónleikaferðin er með „big-band“ stíl og í þeim anda ómaði Frank Sinatra og „My Way“ um salinn rétt áður en stjarna kvöldsins birtist á sviðinu með hljómsveitinni Tennessee Kids.

Sjarmeraði áhorfendur upp úr skónum

Þótt Timberlake fari ekki leynt með áhrifin sem hann er undir frá listamönnum eins og Sinatra og Michael Jackson þá verður ekki annað sagt en að hann geri hlutina einmitt á sinn hátt. Fyrir einhverjum árum hefði verið freistandi að afgreiða Timberlake bara sem sætan strák í hljómsveit dubbaðri upp af markaðsmönnum, en hann hefur fyrir löngu sannað að hann er sannur listamaður og ótrúlega hæfileikaríkur, jafnvígur á píanó og gítar, stimamjúkur dansari, frábær söngvari, leikari og skemmtikraftur.

Við fyrstu sýn fannst mörgum, þar með talið undirritaðri, að hann hefði valið að klæðast bol með íslenska lopapeysumynstrinu af þessu tilefni. Við nánari athugun reyndist svo ekki vera, þótt honum svipaði til þess, en Timberlake fór samt ekkert leynt með hrifningu sína af Íslandi.

Það verður ekki af manninum skafið að hann er gríðarlegur sjarmör, með mikla persónutöfra, og hann sló á allar réttu nóturnar til að hrífa áheyrendur með sér, strax frá fyrstu mínútunum þegar hann lýsti því yfir að Ísland væri einhver fallegasti staður á jörðu, eins og hann hafði reyndar gert á Twitter fyrr um daginn.

Timberlake náði góðri tengingu við áheyrendur, hann var duglegur að tala við þá og gætti þess að ávarpa öll svæðin í salnum. Fyrir vikið var stemningin ótrúlega þétt alla leið frá sviðinu og í gegnum þvöguna upp í stúku. Litlu máli skipti hvað Timberlake sagði, undirtektirnar voru alltaf drynjandi.

Athygli blaðamanns vakti þó að þegar Timberlake ýjaði að því að Íslendingum þætti ansi gaman að drekka, þá voru undirtektirnar dræmari en hefði kannski mátt búast við. Enda sást varla vín á nokkrum manni, og hjálpaði vafalaust til að tónleikarnir fóru fram á sunnudagskvöld. Fólk var augljóslega fyrst og fremst komið til að sjá góða tónleika, en ekki til að detta í það.

Algjör sprengja í lokin

Frá því Timberlake steig á svið tók við stanslaus keyrsla í hátt í tvo tíma, án hlés. Timberlake tók öll sín þekktustu lög, sem eru orðin æði mörg, auk ábreiðna frá Michael Jackson. Mikill kraftur var í stórbandinu og sjónarspilið mikið á sviðinu, með hópi dansara þar sem Timberlake sjálfur fór þó fremstur í flokki. Það er magnað að sjá manninn hreyfa sig á sviði.

Inn á milli hægði hann þó á sér, til dæmis í rólegri útfærslu á laginu What Goes Around...Comes Around þar sem Timberlake stóð einn með gítarinn, og salurinn söng með. Hápunktarnir voru margir, sem fyrr segir. Lagið Cry Me a River er í sérstöku uppáhaldi hjá undirritaðri og olli ekki vonbrigðum. Summer Love var verulega kraftmikið og að sjálfsögðu var vel tekið undir þegar strákar og stelpur kallast á í laginu Señorita.

Þótt þeir hafi verið þéttir út í gegn þá var síðari hluti tónleikanna bestur og lokalögin algjör sprengja. Suit and Tie var síðasta lag fyrir uppklapp og eftir það slokknuðu ljósin í stutta stund meðan áhorfendur kröfðust þess að fá meira. Og það fengu þeir því Timberlake klykkti út með Sexy Back sem tryllti salinn og að síðustu laginu Mirrors sem var hið fullkomna lokalag og stemningin í salnum ólýsanleg.

Þegar hann lýsti því sjálfur yfir að áhorfendur væru ótrúlegir („You guys are fucking amazing!“) var ekki annað að heyra en hann meinti það í fyllstu einlægni. Timberlake skildi við áhorfendur í hæstu hæðum og mátti heyra það þegar gengið var út úr Kórnum að fólk var í sæluvímu með kvöldið.

#JTkórinn sló nýjan tón í tónleikahaldi á Íslandi og enginn vafi á því að þetta eru einhverjir allra flottustu tónleikar sem hér hafa farið fram. Talsmenn Senu sögðu í samtali við mbl.is í morgun að með þeim hafi grunnur verið lagður að frekara stórtónleikahaldi á Íslandi. Vonandi gengur það eftir, þótt allt eins gæti verið að Kórinn hafi byrjað á toppnum því það fer ekki hver sem er í fótspor Justin Timberlake. Og hver veit nema hann komi aftur, því lokaorðin áður en hann hvarf af sviðinu voru: „Ég sé ykkur aftur næst.“

Enn er hægt að horfa á tónleikana í heilu lagi á vef Yahoo en lokasprenginguna, lagið Mirrors, má sjá hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert