„Eruð þið ekki að ganga of langt“

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Umboðsmaður Alþingis sendi Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra, bréf í gær þar sem hann gerir grein fyrir því að hann hafi ákveðið að taka til formlegrar athugunar samskipti ráðherrans og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Bréfið er það þriðja sem umboðsmaður sendir ráðherra varðandi lekamálið svokallaða.

Athugun umboðsmanns tekur til tiltekinna samskipta sem áttu sér stað á milli ráðherra og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á sama tíma og lögreglan vann að rannsókn á sakamáli tengdu innanríkisráðuneytinu, en einnig samskipta sem áttu sér stað síðar. Í bréfinu beinir umboðsmaður jafnframt tilteknum spurningum til ráðherra vegna málsins. Óskaði umboðsmaður að bréfinu yrði svarað ekki síðar en 10. september, og hefur ráðherra nú þegar svarað því.

Sjá frétt mbl.is: Óánægð með vinnubrögð umboðsmanns.

Umboðsmaður vekur athygli á því að athugun hans á málinu er liður í því að ganga úr skugga um hvort mál þetta sé af því tagi að tilefni sé til þess að fara þá leið sem mælt er fyrir í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður tekur fram að hann hafi rætt við lögreglustjórann og fengið lýsingu hans á samskiptunum sem um ræðir. Þar kom jafnframt fram að lögreglustjórinn hefði komið upplýsingum um þessi samskipti á framfæri við ríkissaksóknara, og hafði umboðsmaður einnig samband við hann. Ríkissaksóknari staðfesti þetta í samtali við umboðsmann og lýsti því sem fram hefði komið af hálfu lögreglustjórans.

Umboðsmaður átti, eins og áður segir, samtöl við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu, og birtast brot úr þessum samtölum í bréfinu. Fram kemur að lögreglustjórinn hafi átt í vandræðum vegna margra spurninga sem honum hafi borist frá ráðherra. Sumar hafi verið þess eðlis að hann hafi þurft að afla upplýsinga um rannsóknina. Þess vegna hafi hann haft samband við ríkissaksóknara og gert honum grein fyrir því að hann hafi fengið símtal frá ráðherra, „þar sem hún var að gera athugasemdir við ýmsa þætti í rannsókninni og spyrja margvíslegra spurninga og teldi að rannsóknin væri of ítarleg og óskaði eftir upplýsingum um meðferð trúnaðargagna og annað í þeim dúr.“

Haft er eftir lögreglustjóranum í bréfinu að ráðherra hafi haft samband vegna rannsóknarinnar og undrað sig á umfanginu. „Símtölum þar sem hún er að undra sig yfir umfangi rannsóknarinnar og hvað við erum að ganga langt“ er haft eftir lögreglustjóra. „Hún er að fara yfir það að þetta séu mjög viðkvæm gögn“

„Við auðvitað látum ykkur fá allt. Þið hafið aðgang að þessu öllu saman en eruð þið ekki að ganga of langt í þessu öllu saman,“ voru orð Hönnu Birnu að því er umboðsmaður hefur eftir Stefáni í bréfinu.

Í lok bréfsins óskar umboðsmaður eftir að innanríkisráðherra lýsi afstöðu sinni til ýmissa atriða er varða málið. Þar á meðal óskar hann eftir afstöðu ráðherra til þess hvort rétt sé greint frá samskiptum hans við lögreglustjórans og fleiri atriða.

Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður Alþingis óskar eftir upplýsingum frá Hönnu Birnu …
Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður Alþingis óskar eftir upplýsingum frá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur um samskipti hennar við Stefán Eiríksson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka