Virknin að aukast á skjálftasvæðinu

Umferð bönnnuð í Öskju
Umferð bönnnuð í Öskju Ólafur Már Björnsson

Mikil skjálftavirkni er enn undir og við norðanverðan Vatnajökul og hafa tveir skjálftar yfir fimm stig orðið í Bárðarbungu. Jarðskjálfti sem mældist 4,5 stig varð í Öskju skömmu fyrir klukkan tvö. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands hefur viðbúnaðarstigi ekki verið breytt. Virknin er meiri en á sama tíma í gær. Stóru skjálftarnir í Bárðarbungu eru túlkaðir sem afleiðing þrýstingsbreytinga sem tengjast framrás berggangsins.

Stærsti skjálftinn í nótt reið yfir skömmu eftir miðnætti og mældist 5,3 stig. Klukkan 2:50 reið síðan yfir skjálfti upp á 5,2 stig. Fyrri skjálftinn átti upptök sín 2,5 km SA af Bárðarbungu, sá síðari 9,6 km ANA af Bárðarbungu. 

Skjálftinn í Öskju átti upptök sín 2,9 km SV af Dreka, eða rétt austan við Öskju. Einstaka smáskjálftar hafa sést þar fyrr í þessari viku en það er reyndar ekki óalgengt, að sögn jarðvísindamanns á Veðurstofu Íslands. Ástæður Öskjuskjálftans og afleiðingar er enn of snemmt að segja til um en vel er fylgst með svæðinu.

Um hálftíma eftir að skjálftinn sem mældist 5,3 stig reið yfir jókst virkni mjög við enda berggangsins sem heldur áfram að skreiðast í norðurátt.

Virknin náði einhvers konar hámarki um tvöleytið í nótt, samkvæmt upplýsingum frá Pálma Erlendssyni, sérfræðingi hjá Veðurstofu Íslands, og hefur haldist nokkurn veginn þar síðan.
Fjöldi skjálfta af stærðinni 2-3 hefur mælst þar.

Yfir 500 skjálftar frá miðnætti

Um sexleytið voru sjálfvirkt staðsettir skjálftar komnir upp í 500 frá miðnætti. Nánast allir urðu við norðurenda berggangsins.

Stöðug skjálftavirkni er við Bárðarbungu, sérstaklega við enda kvikusprungunnar sem komin er út í Holuhraun norðan Dyngjujökuls. Skjálftarnir eru heldur færri en í fyrradag en þeir eru öflugri. Þannig varð stærsti skjálfti þessarar hrinu í fyrrinótt, af stærðinni 5,7. Átti hann upptök sín norðantil í Bárðarbunguöskjunni. Annar jarðskjálfti varð um hádegið, 4,6 að stærð, á um 8 km dýpi við jökulsporð Dyngjujökuls. Hann fannst víða í byggð.

Kort er sýnir skjáfta við norðurhluta berggangsins ásamt Öskju í …
Kort er sýnir skjáfta við norðurhluta berggangsins ásamt Öskju í nótt. Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka