Hefði átt að nýta tímann betur

Nokkrir óformlegir fundir voru í sumar en báru þeir ekki …
Nokkrir óformlegir fundir voru í sumar en báru þeir ekki árangur. Sigurður Bogi Sævarsson

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, segist hafa átt von á að tíminn yrði nýttur betur í sumar til að leysa kjaradeilu undirmanna á Herjólfi við Eimskip. Aðeins einn formlegur fundur fór fram í kjaradeilunni í sumar, sl. fimmtudag, og er næsti fundur boðaður hjá ríkissáttasemjara þann 15. september nk.

Nokkrir óformlegir fundir voru í sumar en báru þeir ekki árangur. Enn er því ósamið og útlit fyrir að ekki takist að semja áður en lög um frestun verkfallsaðgerða undirmanna á Herjólfi sem sett voru þann 2. apríl sl. falla úr gildi þann 16. september nk.

Gera kröfu um að samgöngur verði tryggðar

„Mér líst afskaplega illa á þetta. Ég er ekki viss um að menn geri sér grein fyrir þeim samfélagslegu áhrifum sem þetta hefur. Það gengur ekki að ríkið stilli málum upp þannig að við eigum atvinnuöryggi okkar undir kjaradeilum þriðja aðila,“ segir Elliði í samtali við mbl.is.

Aðspurður um þróun kjaradeilunnar í sumar segist hann að sjálfsögðu hafa átt von á að tíminn yrði nýttur vel. „Það virðist vera rosaleg harka í þessu og mikið ber á milli deiluaðila. Það gengur ekki að loka næststærsta byggðarlagi landsbyggðarinnar. Samfélagið lamast þegar gripið er til svona verkfallsaðgerða,“ segir Elliði.

„Við gerum þá kröfu til ríkisins að samgöngur verði tryggðar til Vestmannaeyja. Það gildir einu hvort það þurfi að dýpka Landeyjahöfn eða leysa kjaradeilu.“

Sagði félagið taka frestinn mjög alvarlega

Á fundi hjá ríkissáttasemjara um miðjan apríl lagði Eimskip fram tilboð þar sem að mati félagsins var verulega komið til móts við kröfur áhafnar á Herjólfi í mörgum veigamiklum þáttum.

Eftir fundinn sagði Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands, að „rúllað hefði verið yfir stöðuna“ án þess að neitt nýtt kæmi fram og deilan væri í raun á byrjunarreit.

Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, sagði í samtali við mbl.is eftir fundinn að félagið tæki frestið sem ríkið gaf með lagasetningu mjög alvarlega og liti á hann sem frest til að vinna að lausn málsins en ekki að tefja hana fram í september. 

Þá sagði hann einnig að það væri ólíðandi fyrir Vestmannaeyinga og aðra sem þyrftu að nota þjónustu ferjunnar að lifa í ótta um annað verkfall í september.

Elliði Vigfússon, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Elliði Vigfússon, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert