Ingileif Friðriksdóttir -
Aðalfundur DV hófst nú klukkan 15. Á fundinum sitja stjórn og hluthafar félagsins DV ehf. Meðal annars verður kosið í nýja stjórn félagsins á fundinum, en með nýrri stjórn er hægt að ráða nýjan framkvæmdastjóra félagsins og þar með nýjan ritstjóra.
Mikil átök hafa verið um eignaraðild að fjölmiðlinum að undanförnu og leiddu meðal annars til þess að Þorsteinn Guðnason var settur af sem stjórnarformaður.
Reynir Traustason, núverandi ritstjóri DV segist vona að fjölmiðillinn verði settur í fyrsta sæti á fundinum. ,,Við viljum stefna að jafnvægi og viljum að það sé dreifð eignaraðild. Það er svo annarra að velja stríð eða frið. Við veljum frið umfram allt,'' segir Reynir, og bætir við að mikil samheldni sé hjá stjórninni um framtíð fjölmiðilsins.
Björn Leifsson, eigandi World Class og nýr hluthafi DV segir sinn tilgang hjá félaginu skýran. ,,Ég er ekki að fara að reka fjölmiðil. Ég vill losna við Reyni Traustason og svo eru mín bréf til sölu,‘‘ segir hann í samtali við mbl.is. ,,Hvort það takist veit ég ekki,‘‘ bætir hann við. Björn segist ekki hafa fengið aðra hluthafa með sér í lið, ,,ég spila bara sóló.‘‘