Færeyski togarinn Næraberg, sem legið hefur við bryggju við Vogabakka í Reykjavík í morgun, mun fá olíu og vistir eftir því sem þörf krefur fyrir heimferð. Þetta segir Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu.
Landhelgisgæslan varpaði varahlutum með fallhlíf til skipsins fyrir viku þegar upp kom bilun í landhelgi Grænlands.
Líkt og kom fram í frétt mbl.is í morgun er skipinu óheimilt, samkvæmt lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, að koma að koma til íslenska hafna. Komi skipið þangað er óheimilt að veita skipinu þjónustu.
Í fyrstu milligrein þriðju laga um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands segir að erlendum skipum, sem stunda veiðar eða vinnslu á afla úr sameiginlegum nytjastofnum sem veiðast bæði innan og utan íslenskrar fiskveiðilandhelgi sem íslensk stjórnvöld hafa ekki gert milliríkjasamning um nýtingu sé óheimilt að koma til íslenskra hafna. Þá segir einnig að óheimilt sé að veita þessum skipum þjónustu.
Ísland er ekki hluti af samkomulagi um skiptingu makrílkvótans til næstu fimm ára, líkt og Evrópusambandið, Færeyjar og Noregur. Næraberg veiðir makríl í grænlenskri lögsögu og fellur því undir bannið.
Jóhann segir að Íslendingar og Grænlendingar hafi gert sérstakt samkomulag sín á milli sem felst í því að grænlensk skip fá að landa tilteknu magni af makríl, veiddum í Grænlandi, hér á landi.
Hann segir Færeyinga ekki hafa óskað eftir sambærilegu samkomulagi og því hafi Færeyingum mátt vera ljóst að færeysk skip, sem stundi veiðar á makríl Grænland, komi ekki til íslenskra hafna frekar en t.d. Rússar
Jóhann segir að litið hafi verið svo á að um neyðartilvik væri að ræða í tilfelli Nærabergs en upp var komin bilun í vél skipsins sem gerði það að verkum að skipið hafði ekki afl til að sigla á sama hraða og venjulega.
Veðurspá fyrir sunnudaginn er ekki góð og því var ákveðið að heimila skipinu að leggjast við höfn í Reykjavík. Landhelgisgæslan heimilaði því skipinu að leggjast að bryggju.
mbl.is ræddi við Gísla Gíslason, hafnarstjóra Faxaflóahafna og Ásgrím Ásgrímsson, framkvæmdastjóra aðgerðarsviðs Landhelgisgæslunnar í morgun. Þá hafði ekki fengist leyfi til að þjónusta skipið, til að mynda með að veita því olíu.
Ásgrímur sagði í samtali við mbl.is nú fyrir stundu að staðan hefði verið metin sem svo í gær, eftir að upplýsingar fengust um ástand skipsins, að skapast gæti neyðarástand og því var ljóst að skipið fengi leyfi til að koma til hafnar.
Að sögn Jóhanns er nú búið að ræða málin og fær skipið olíu og vistir fyrir heimferðina ef þörf krefur. „Það eru hinsvegar hreinar línar ef nóg er af kosti og olíu í skipinu til að það komist heim til sín, þá þarf ekkert að gera fyrir það. Við ætlum hins vegar ekki að hafa skipið olíulaust í íslenskri höfn“ segir Jóhann og bendir á að þetta sé síður en svo í fyrsta skipti sem hafnbanninu er beitt.
Í frétt á vef Landhelgisgæslunnar frá 22. ágúst sl. kemur fram að flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, hafi flutt varahluti í togarann.
Togarinn var þá staddur í landhelgi Grænlands. Varahlutunum var kastað út úr flugvélinni í fallhlíf en TF-SIF er sérstaklega útbúin hurð sem nýtist vel við flutning sem þennan sem og fallhlífarstökk.
Fréttir mbl.is um málið: