Gossprungan 1 km að lengd

Gossprungan í Holuhrauni er um 1 kílómetri að lengd. Mart­in Hensch, jarðskjálfta­fræðing­ur hjá Veður­stofu Íslands, segir að eftir kl. 1 í nótt hafi dregið nokkuð úr gosóróa á svæðinu. Gosórói kom fram á mælum Veðurstofunnar frá kl. 00.20-02.00.

„En eldgosið er enn í gangi,“ segir Martin í samtali við mbl.is. Hann segir vísindamenn Veðurstofunnar í nálægð við gosstöðvarnar þar sem þeir fylgjast með framvindunni. Þeir telja að gossprungan sé um 1 km að lengd. Þeir segja að nokkuð hafi dregið úr gosinu frá því það var fyrstu klukkutímana. 

Martin segir að frá því að eldgosið hófst hafi dregið úr jarðskjálftavirkni á svæðinu. „Það er eðlilegt því að við eldgos léttir á þrýstingi,“ segir Martin. Hins vegar mælist enn litlir jarðskjálftar suður af gosstöðvunum, í og við Dyngjujökul. Þar hefur skjálftavirkni verið síðustu daga.

Spurður um hvort að líklegt sé að gos verði einnig undir jökli, segir Martin að það sé eitt af því sem sérfræðingar Veðurstofunnar fylgist náið með. Ekkert sé hægt að segja um það á þessari stundu. „Eins og staðan er núna eru engin merki þess að gosið sé að færast sunnar.“

Martin segir að enn sé ekki búið að staðsetja gossprunguna í Holuhrauni nákvæmlega og því ekki hægt að fullyrða að hún sé á sama stað og sprungur mynduðust í hrauninu og vísindamenn sáu úr lofti í gær. 

Engin breyting hefur orðið á flæði vatns undan jöklinum, samkvæmt mælum Veðurstofunnar. Martin bendir á að gosið nú sé á hraunsvæði, ekki undir jökli. Hann segir því ekki hættu á jökulhlaupi, „svo lengi sem eldgosið verður áfram á því svæði sem það er á núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka