Færeysk-íslenska viðskiptaráðið harmar vanhugsuð viðbrögð íslenskra stjórnvalda vegna komu færeyska skipsins Næraberg til Reykjavíkur. Áður en skaðinn af þessari aðgerð verður meiri en orðið er hvetur viðskiptaráðið stjórnvöld á Íslandi og í Færeyjum til að grípa til nauðsynlegra aðgerða.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem viðskiptaráðið hefur sent frá sér. Hún er svohljóðandi:
„Færeysk-íslenska viðskiptaráðið harmar vanhugsuð viðbrögð íslenskra stjórnvalda vegna komu færeyska skipsins Næraberg til Reykjavíkur. Þegar er orðið ljóst að þau viðbrögð vekja efasemdir í Færeyjum um að hugur fylgi máli af Íslands hálfu varðandi Hoyvikursamninginn, sem tryggja á jafna stöðu íslenskra og færeyskra borgara og fyrirtækja í báðum löndum.
Áður en skaðinn af þessari aðgerð verður meiri en orðið er hvetur Færeysk-íslenska viðskiptaráðið stjórnvöld á Íslandi og í Færeyjum til að grípa til nauðsynlegra aðgerða sem koma í veg fyrir að mál sem þessi komi upp aftur. Færeysk-íslenska viðskiptaráðið hvetur til aukinnar samvinnu Íslands og Færeyja á öllum sviðum og til þess að árangur samvinnunnar verði sýnilegri verða stjórnvöld að ryðja úr vegi öllum hindrunum, sem til þess eru fallnar að sá efasemdum um heilindi í sjálfsögðu og farsælu samstarfi.“